Formannspistill

frida run thordardottir

Við skrif á leiðara hvers blaðs gefst formanni tækifæri til að stikla létt á þeim verkefnum sem verið hafa í gangi og því sem fram undan er. Þetta er góð leið til að horfa yfir sviðið og sjá hver raunveruleg verkefni félagsins eru á hverjum tíma. Skrifstofa AO tekur það helsta er snýr að ábendingum og samskiptum við félagsmenn og hvet ég fólk til setja sig í samband við hana til að fá faglega aðstoð eða að miðla formlegu erindi til stjórnar.

Það er dýrmætt að hafa félagsmenn og við viljum heyra frá ykkur og vera til staðar ef við mögulega getum hjálpað. Einnig höfum við verið svo lánsöm að geta notið aðstoðar gegnum ÖBÍ réttindasamtök og SÍBS skrifstofuna ef að okkur hefur ekki sjálfum tekist að leysa málin, til að mynda ef gróflega hefur verið brotið á öryggi og heilsu félagsmanns.

Leik- og skólaheimsóknirnar sem fjallað er um í blaðinu eru gjaldfrjálsar og það er um að gera að hafa samband og fá slíka heimsókn til að minnka álag og kvíða gagnvart mat og máltíðum, hræðslu fólks við notkun á Epipen svo það helsta sé nefnt. Við viljum fara í sem allra flestar heimsóknir.

Árið 2024 fékk AO nýtt verkefni í samtali við læknastétt Ofnæmis- og ónæmislækna sem skýrðu fyrirsjáanlegan og alvarlegan skort á nýliðun í hópi lækna sem sérhæfa sig í ofnæmis- og ónæmislækningum. Félagið fór af stað og útvegaði fjármagn til ritunar námsskrár og stofnaði síðan um áramótin styrktarsjóð til að styðja við þá sem út í slíkt nám fara. Skemmtilegt, gagnlegt og sérhæft verkefni það. Meira um það í blaðinu.

Ef ekki nú þá hvenær? Við þurfum að hugsa inn í framtíðina og undirbúa okkur fyrir breytta tíma í því hvernig fólk sækir sé áreiðanlegar upplýsingar. Þetta gerum við með gerð AO spjallmennisins, sem prýðir nú forsíðu blaðsins, en einn úr stjórninni hannaði spjallmennið fyrir félagið. Lítum við á þetta sem gríðarlega framför inn í framtíðina – innilegar þakkir Hermann þetta var ótrúlegt verk sem þú inntir af hendi!

Einnig vinnum við í nýrri heimasíðu sem gefur tækifæri til að miðla meira efni og á annan máta, sýna myndbönd og stiklur – einmitt til að sýna nýjustu myndina okkar og SKOTs um bráðafæðuofnæmi. Félagið færir SKOT og þeim sem báru hitann og þungann af gerð myndarinnar og léku hlutverkin svo vel, innilegar þakkir.

Hvert er raunverulegt gildi félagsins, mun það lifa áfram á því formi sem við störfum núna eða þurfum við meiri samlegðar áhrif með öðrum og stærri aðilum – þurfum við EFA til að virkilega hafa eitthvað að segja? Ekki endilega en það væri mjög gott að ná að tengjast hugmyndavinnu EFA meir og ná að miðla meiru efni til íslenskra stjórnvalda, læknastéttar og Embættis Landlæknis. Margar hendur hafa unnið létt verk og við erum ávallt opin fyrir því að taka á móti fólki sem vill leggja félaginu lið með hugmyndum og elju.

Allt skiptir máli þegar kemur að samtökum sem okkar þar sem hver sjálfboðaliði er dýrmætur. Það skiptir miklu máli að vera sýnileg, hafa tiltekið vægi, vera sá sem leitað er til vegna lélegrar þjónustu, ítrekaðra mistaka í mötuneyti, óréttmætis og lagasetninga sem skerða hlut þeirra sem lifa með ofnæmi. AO vill vera þar og því vinnum við að því hörðum höndum að vera sýnileg og sá sem leitað er til. Við viljum endilega líka heyra góðu sögurnar, sögurnar af því sem gengur vel og er til hagsbóta og upplyftingar fyrir þá sem búa við astma og ofnæmi. 

Fríða Rún Þórðardóttir,
formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands

Pistillinn birtist í 1. tölublaði samtakanna 2025.