Húðofnæmi

Húðofnæmi er viðbragð ónæmiskerfisins þegar húðin kemst í snertingu við efni sem líkaminn telur hættulegt. Þetta veldur bólgusvari sem birtist sem roði, kláði, þurrkur eða útbrot. Algengt er að húðofnæmi þróist eftir endurtekna snertingu við efni í daglegu lífi, svo sem snyrtivörur, sápu, ilmefni, málma eða plöntur.

Megingerðir húðofnæmis eru tvær: snertiofnæmi, til dæmis vegna nikkels, ilmefna eða rotvarnarefna, og ofnæmishúðbólga, sem oft tengist öðrum ofnæmissjúkdómum eins og astma eða frjóofnæmi.

Þótt húðofnæmi sé ekki lífshættulegt getur það haft mikil áhrif á líðan og lífsgæði. Rétt greining og forðun frá orsökum eru lykilatriði í meðferð og forvörnum.

Einkenni

  • Roði, kláði eða sviðatilfinning í húð sem verður við snertingu eða birtist eftir smá tíma frá snertingu
  • Litlar upphleyptar skellur, bólur eða blöðrur á húð sem geta myndast við snertiofnæmi
  • Þurr húð, hreistruð eða sprungin húð 
  • Endurtekinn kláði eða útbrot sem koma og fara og getur versnað við ákveðna þætti eins og kulda, efni í fatnaði eða ilmefni

Greining

  • Læknir eða húðsjúkdómalæknir metur einkenni og framkvæmir oft plástrapróf til að finna orsök

Meðferð

  • Vert er að forðast efni sem valda viðbrögðum
  • Nota róandi og rakagefandi krem, stundum barksterakrem við bólgu
  • Við þrálát einkenni er rétt að leita til ofnæmissérfræðings
  • Antihistamín við kláða

Góð ráð

Betra er að klæðast mjúkum og þægilegum fatnaði úr bómull, frekar en grófu ullarefni eða gerviefnum, því þau erta frekar húðina. Vert er að velja ilmefnalausar og mildar húðvörur til að minnka truflun á húðinni. Haldið húðinni rakri með rakakremum. Tryggið svo góða loftræstingu og passið hitastig/loftraka í herbergjum. Þurrt loft getur aukið á húðvandann. Fylgist svo með hvernig líðan tengist öðrum þáttum eins og streitu, kulda eða snertingu við ákveðin efni. Þá er auðveldara að bregðast við fyrr þegar einkenni byrja.