Dýraofnæmi er ofnæmisviðbragð líkamans við próteinum sem finnast í líkamsvessum dýra – oftast í munnvatni, húðflögum, þvagi og hárum. Þegar fólk með ofnæmi andar að sér þessum ögnum eða kemst í snertingu við dýrin getur ónæmiskerfið brugðist við með ofnæmiseinkennum. Ofnæmið er algengast vegna katta og hunda, en einnig eru til ofnæmisviðbrögð vegna til dæmis hesta, nagdýra, kanína og fugla.
Helsta orsök dýraofnæmis er prótein í húðflögum, munnvatni og þvagi dýra. Þetta eru helstu ofnæmisvaldarnir, ekki hárin sjálf.
Kattarofnæmi er algengast, enda dreifast agnirnar víða og geta verið í andrúmslofti, húsgögnum og fötum, jafnvel á heimilum þar sem engir kettir eru til staðar. Sjúkdómseinkennin orsakast af viðbrögðum líkamans við ofnæmisvökum dýra. Til að mynda myndast ofnæmisvakinn í fitukirtlum í húð katta og berst í feldinn þegar kötturinn sleikir sig. Ofnæmisvakinn finnst einnig í munnvatni, húð og slímhúð. Ofnæmisvakar geta fundist mörgum mánuðum eftir að köttur var á staðnum. Það sem hér hefur verið sagt um ketti á í stórumdráttum einnig við önnur pelsdýr.
Ofnæmisviðbrögð eru einstaklingsbundin – sumir fá væg einkenni, aðrir alvarleg. Erfðir skipta máli. Ef foreldrar eru með ofnæmi eða astma, aukast líkur barns á að fá dýraofnæmi.
Ofnæmisvakar frá dýrum eru í umhverfinu allt árið um kring. Þeir sem hafa dýraofnæmi eru því með einkenni á öllum tímum ársins. Þó versna einkennin á haustin og veturna þegar innvera eykst og skólaganga hefst. Einkenni geta versnað við það eitt að sitja í sömu skólastofu, við hlið bekkjarfélaga sem á dýr. Barnaexem (atopic dermatitis) vegna pelsdýra er vel þekkt. Auk þess getur snerting við dýr valdið ofsakláða (urticaria) og ofsabjúg (angioedema).
Einstaklingar með dýraofnæmi eru oft með astma, sérstaklega áreynsluastma. Þeir kvarta þá yfir þrálátu nefkvefi, hóstakjölti og surgi fyrir brjósti eftir áreynslu. Eiknennin koma fljótt í ljós við beina snertingu við dýrið.
Einkenni
- Hnerri, nefstíflur, nefrennsli og kláði í nefi
- Rauð, þrútin og tárvot augu
- Hósti, mæði og önghljóð í öndun – sérstaklega hjá einstaklingum með astma
- Kláði, útbrot eða exem snerti dýrin húðina eða ofnæmisagnir festast í fötum
- Astmaeinkenni versna hjá þeim sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma
Greining
- Góð sjúkrasaga er undirstaða að réttri greiningu
- Ofnæmispróf eru gerð hjá lækni – húðpróf eða blóðpróf eru notuð sem greina ofnæmisviðbrögð við dýraofnæmisvöldum
- Læknir metur sögu sjúklings og umhverfisþætti, svo sem dýr á heimilii og einkenni tengd dýrum
- Ef grunur er um að astmi tengist ofnæminu þarf stundum að grea öndunarpróf
Meðferð
- Áhrifaríkast er að forðast snertingu við dýr sem valda ofnæmi
- Halda dýrum utan svefnherbergis. Einnig getur það minnkað einkenni að þrífa teppi, föt og húsgögn reglulega og nota loftsíur
- Ofnæmislyf (antihistamín, nefspray, augndropar) draga úr einkennum
- Bólgueyðandi og berkjuvíkkandi astmalyf ef öndunarfæraeinkenni eru til staðar
- Ónæmismeðferð (desensitization) er í boði fyrir suma með langvarandi og alvarlegt ofnæmi. Þá venst ónæmiskerfið ofnæmisvöldum með tímanum
Notuð er svipuð lyfjameðferð við dýraofnæmi og við öðrum ofnæmi. Meðferðin breytist sífellt með nýjum lyfjum, Oftast er hægt að tryggja sæmilega líðan ef lyfin eru notuð rétt.
Góð ráð
Dýraofnæmi getur þróast með tímanum og verið til staðar jafnvel þótt einstaklingur haldi að hann þoli dýrið. Oft er fullyrt að börn sem alast upp með dýrum fái ekki ofnæmi. Rannsóknir sýna hins vegar misvísandi niðurstöður um verndandi áhrif snemmkominnar útsetningar.
Munum einnig að dýraofnæmi er algengt og oft hægt að halda einkennum í skefjum með réttri aðlögun og meðferð. Það er ekki alltaf nauðsynlegt að losa sig við gæludýrið – en mikilvægt er að vera upplýstur og vega og meta áhrifin. Ef einkennin eru væg og fjölskylda vill ekki láta dýrið frá sér má fækka ofnæmisvökum með eftirfarandi hætti:
- Dýrið má ekki vera inni í svefnherbergi þess sem hefur ofnæmi
- Dýrið skal þvo (rennbleyta) 1-2 vikna fresti. Ekki nota sápu
- Sængurföt skal þvo vikulega við 60°C
- Tryggja góð loftskipti í svefnherberginu og hafa glugga opna þegar kostur er
- Þurrka af með rakri tusku
- Nota ryksugu með HEPA filter eða tvöföldum poka
- Nota dýnuklæði (Matress cover) og koddaklæði sem hindra að ofnæmisvakinn komist í gegnum lak, sængur- eða koddaver.
|