ASTMI

Hvað er astmi? Astmi er langvinnur bólgusjúkdómur í öndunarvegum sem veldur þrengslum í berkjum. Slímhúðin í lungunum er því viðkvæmari hjá þeim sem hafa astma en hjá flestum öðrum. Astmi einkennist af mæði, hósta og surgi, oft tengt áreiti. Má þar nefna ofnæmi, áreynslu, kulda og vegna ertandi efna eins og mengun og tóbaksreyk. Meðferð felur í sér forvarnir og lyf sem draga úr bólgu og bæta öndun. Hægt er að meðhöndla astma.


Einkenni

Margt getur valdið astmaeinkennum eða astmaköstum og er það nokkuð mismunandi milli einstaklinga og aðstæðum sem þeir eru í. 

  • Mæði og erfiðleikar við öndun
  • Hósti, oft viðvarandi eða hann versnar á morgnana eða á nóttunni
  • Surg eða blístur í lungum við öndun
  • Þrýstingstilfinning eða þrengsli fyrir brjósti
  • Einkennin geta komið í köstum eða verið viðvarandi, og magnast oft við snertingu við ofnæmisvalda, kulda og sérlega við sýkingar

Orsakir

Þær breytingar sem verða í lungnaberkjunum gera þær viðkvæmari og auðertanlegri. Þess vegna koma astmaeinkennin fram. Oft er greint á milli sérhæfðra og ósérhæfðra orsakavalda eða áreitis. Ósérhæfðir þættir eða áreiti eru til dæmis tóbaksreykur, kuldi, sterk lykt og líkamleg áreynsla. Til sérhæfðra þátta eða áreita heyra til dæmis frjókorn, rykmaurar, dýrahár, mygla og hægt er að fá mastma af fæðuofnæmi.

  • Ofnæmi (til dæmis frjókorn, dýr, rykmaurar, mygla)
  • Sýkingar í öndunarvegi (til dæmis kvef, inflúensa)
  • Kalt og þurrt loft
  • Reykur, mengun og sterkir ilmir (til dæmis ilmvatn)
  • Áreynsla, sérstaklega í köldu lofti
  • Sum lyf, svo sem bólgueyðandi lyf eins og íbúprófen og beta-blokkerar

Greining

  • Blásturspróf, (e. spirometry)
  • PEF-mæling (e. peak expiratory flow). Einföld mæling sem mælir loftstreymi frá lungum með því að blása í svo til gert mælirör
  • Ofnæmisrannsóknir
  • Skrá einkenni í dagbók

Til að fullvissa sig um að um astma sé að ræða, kann að vera nauðsynlegt að mæla lungnastarfsemi kvölds og morgna á nokkurra daga tímabili svo læknir geti metið sveiflur í lungnastarfseminni. Læknar mæla stundum lungnastarfsemi fyrir og eftir skammt af berkjuvíkkandi lyfjum. Hækki blástursgildi um meira en 15-20% eftir að slík lyf hafa verið tekin, bendir það til þess að um astma sé að ræða.


Meðferð

  • Berkjuvíkkandi lyf (til dæmis salbutamol): fljótverkandi, notuð við bráðum einkennum
  • Bólgueyðandi innúðalyf (til dæmis barksterar)
  • Oft eru notaðir samsettar innúðar með bæði berkjuvíkkandi og bólgueyðandi lyfjum
  • Reglulegt eftirlit og mæling á lungnastarfssemi eru mikilvæg fyrir stýringu meðferðar
  • Fræðsla og einstaklingsbundin meðferðaráætlun, meðal annars til að þekkja það sem eykur vandann
  • Forðastu það sem veldur astmanum

Hvenær skal leita til læknis?

  • Við endurtekna mæði, hósta eða surg, sérstaklega á nóttunni eða við áreynslu
  • Ef astminn versnar skyndilega og berkjuvíkkandi lyf hjálpa ekki nægilega
  • Ef þú þarft að nota neyðarinnúðalyf oftar en 2 sinnum í viku
  • Þegar einkenni byrja að hafa áhrif á svefn, vinnu eða daglegt líf
  • Ef þú hefur áður fengið alvarlegt astmakast eða þurft sjúkrahúsinnlögn
  • Börn með þrálátan hósta og/eða surg í brjósti og mæði ættu að fara í mat hjá lækni

 

En hvað gerist í líkamanum við astma? Lungun leika aðalhlutverkið. Við drögum andann inn um nef og munn. Þaðan berst loftið niður um barkann. Hann greinist í tvær sverar berkjur sem liggja hvor niður í sitt lunga. Í lungunum greinast berkjurnar síðan aftur og aftur í sífellt smærri berkjugreinar. Þær enda að lokum í örlitlum sekkjum eða lungnablöðrum.

Loftið streymir um berkjurnar allt til lungnablaðranna og þar fara fram loftskipti. Líkaminn tekur til sín súrefni úr innandaða loftinu og skilar koltvísýringi úr blóðinu í loftinu. Við öndum honum svo frá okkur.

Berkjurnar eru þaktar að innan með svokallaðri slímhúð. Slímhúðin er viðkvæmari fyrir ertingu hjá þeim sem hafa astma en hjá flestum öðrum. Við áreiti bólgnar slímhúðin upp og gefur frá sér seigt, þykkt slím. Einnig getur komið krampi eða samdráttur í slétta vöðva sem liggja utan um berkjurnar.

Samspil bólgu og vöðvasamdráttar veldur astmaeinkennum. Við samdrátt og bólgna slímhúð minnkar þvermál lungnaberkjanna og loftið á erfiðara með að smjúga inn og út.

Bólgin og ert slímhúð veldur því að lungun þola minna áreiti og áreitisþröskuldur þeirra lækkar. Þessi þröskuldur getur breyst mikið frá einum tíma til annars. Stundum þolir þú því mikið áreiti, en stundum færðu astmaeinkenni við sáralitla ertingu lungnanna.

Góð ráð

Fylgja meðferðaráætlun frá lækni og skrá einkenni ef þörf er á endurmati. Taka lyf rétt og reglulega. Nota innúðatæki rétt:

  • Æfa rétta tækni
  • Nota "spacer" (millistykki) ef lyfið á að fara betur niður í lungun
  • Þvo munn eftir sterainnúðalyf til að forðast sveppasýkingar í munni

Draga úr áreiti í umhverfinu. Forðast reykingar og vera ekki í nálægð við tóbaksreyk. Halda hreinu og lofta vel út, því ryk og mygla geta leitt til þess að astminn versni. Gæta að loftgæðum heima og í skóla/vinnu.

Huga að öndun og líkamsrækt. Hreyfing er holl, en hentar best með upphitun og góðri stjórn á öndun.