Hvað er frjókornaofnæmi?

Frjókornaofnæmi, einnig kallað ofnæmiskvef, er ofnæmissjúkdómur sem gerir vart við sig þegar ónæmiskerfi líkamans bregst óeðlilega við frjókornum úr plöntum, grasi eða trjám. Frjókornaofnæmi er eitt algengasta ofnæmið. Það er ástíðarbundið og kemur fram í nefi og augum. Ástæðan er ofnæmi fyrir grasi, birki eða súrum það er frjókornum frá gróðri. Einkennin koma yfirleitt fram á sama tíma á hverju ári og sumum reynist erfitt að greina milli svokallaðs sumarkvefs og frjóofnæmis. Margir þjást af ítrekuðu kvefi á hverju sumri áður en þeir átta sig á því að um frjókornaofnæmi er að ræða.

Frjókorn eru örsmáar agnir sem plöntur losa í andrúmsloftið til frjóvgunar, og þegar einstaklingar með ofnæmi anda þessum ögnum að sér bregst líkaminn við með því að losa histamín og önnur efni sem valda bólgu og ertingu.

Nauðsynlegt er að hafa í huga að frjókornaofnæmi getur oft valdið astmaeinkennum.

Hvaða frjókorn valda ofnæmi? Aðallega frjókorn frá ýmsum grastegundum, en einnig frá súrum, til dæmis hundasúru, birki og túnfíflum. Frjókorn frá blómstrandi blómum valda sjaldan ofnæmi. Helsta tímabil frjókornaofnæmis er sumarið, það er júní, júlí og ágúst. Frjókorn frá súrum eru heldur seinna á ferðinni en frjókorna frá grasi, það er frá júlí fram í september.

Hafa ber í huga að fólk með frjókornaofnæmi getur myndað ofnæmi fyrir vissum fæðutegundum. Upplýsingar um samband fæðu og ofnæmis finnur þú á síðum um fæðuofnæmi og fæðuóþol.


Helstu orsakir

  • Frjókorn úr grasi eru ein algengasta orsökin, sérstaklega á sumrin
  • Frjókorn úr trjám, til dæmis birki, ösp og elri, valda oft einkennum snemma á vorin
  • Frjókorn úr arfa og illgresi geta valdið ofnæmi seint á sumrin og haustin
  • Ofnæmið getur verið árstíðabundið eða viðvarandi, allt eftir tegundum frjókorna og umhverfi einstaklingsins

Einkenni

  • Nefrennslu, venjulega tært og þunnt
  • Stíflað nef
  • Dreypi af nefi
  • Hnerri
  • Kláði í augum, eyrum og munni
  • Rauð og vatnsmikil augu
  • Bólga í kringum augu
  • Mæði, hósti og/eða önghljóð

Greining

Læknar geta prófað hvort þú hefur frjókornaofnæmi. Þetta er gert með einföldu húðprófi. Litlir dropar sem innihalda ofnæmisvaldandi efni úr gróðri eru settir á húð á framhandlegg og með lítilli nál er efninu ýtt inn í húðina. Hafir þú ofnæmi fyrir efninu kemur það fram innan 10 mínútna. Húðin roðnar og bólgnar örlítið upp og þú færð kláða á stungustað. Þar með er staðfest að þú hafir ofnæmi fyrir efninu.

  • Sjúkrasaga og tenging við árstíð eða umhverfi skiptir miklu máli
  • Ofnæmispróf (húðpróf eða blóðpróf) eru notuð til að greina nákvæmlega hvaða frjókorn einstaklingur bregst við
  • Læknir kannar einnig hvort önnur ofnæmi eða astmi séu til staðar, sem oft fylgjast að

Meðferð og lífsstílsráð

Eitt af þeim efnum sem líkaminn myndar í ofnæmisviðbragði er histamín. Histamín veldur kláðanum í nefi og augum. Því þarf oft að meðhöndla ofnæmi með svokölluðum andhistamín-lyfjum. Andhistamín-lyf eru yfirleitt í töfluformi en fást einnig sem augndropar og nefdropar.Andhistamín er efni sem hindrar að histamínið virki og einkenni s.s. kláði í augum og nefi hverfur.

  • Ofnæmislyf eins og antihistamín, nefúði og augndropar draga úr einkennum
  • Bólgueyðandi lyf, eins og til dæmis steraúði í nef, eru notuð við alvarlegri einkennum
  • Ónæmismeðferð (ónæming) getur dregið úr næmi líkamans gegn frjókornum og dregið úr eða komið í veg fyrir þörf fyrir lyf til lengri tíma
  • Forðast útiveru þegar frjókorn eru í hámarki – fylgjast má með frjókornaspá á vef AO
  • Loftkæling og loftræsting með síum getur hjálpað til við að halda frjókornum frá
  • Skola nefið með saltvatni til að losna við frjókorn og slímhimnubólgu.
  • Skipta um föt og skola hár eftir útiveru til að minnka útsetningu innanhúss

Krosssvörun - krossofnæmi

Ofnæmismótefni gegn frjókornum geta stundum tengst mótefnavökvum í fæðu sem kallast þá krossofnæmi. Einstaklingar sem eru með ofnæmi fyrir birki eða grasi geta fengið ofnæmiseinkenni við að borða vissa fæðu. Taflan sýnir algengt krossofnæmi við birki og gras.

Skoða töflu

Góð ráð

Frjókornaofnæmi getur haft mikil áhrif á lífsgæði ef það er ekki meðhöndlað rétt. Börn og unglingar eru sérstaklega útsett og getur meðferð haft ýmis áhrif á lífsgæði þeirra, jafnvel bætt námsárangur og líðan. Greining og rétt meðferð geta dregið úr áhættu á að þróa með sér astma.

Frjókornaofnæmi er ekki hættulegt í sjálfu sér, en með réttri greiningu og meðferð er hægt að halda einkennum vel í skefjum og bæta lífsgæði verulega.

Rannsóknir benda til þess að börn fædd á frjókornatímabilum séu líklegri en önnur börn til að fá frjókornaofnæmi þegar þau vaxa úr grasi. Ef hægt er að skipuleggja fæðingartíma barna er því ágætt að reyna að stilla svo til að þau fæðist ekki snemmsumars, eða á þeim tíma árs þegar magn frjókorna í andrúmslofti er í hámarki.

 

Bæklingur

Hér má lesa bæklinginn "Frjóofnæmi" í heild sinni.

FRJÓTÖLUR - Frjómælingar

Mælingar yfir sumartímann frá Náttúrufræðistofnun Íslands:

Fáðu frjótölur í tölvupósti

Þá er einnig sendur út tölvupóstur vikulega frá NÍ, og það er hægt að skrá sig á póstlista með að senda tölvupóst á ni@ni.is