Lyf við ofnæmi miða fyrst og fremst að því að slá á ofnæmisviðbrögð. Í flestum tilfellum eru ekki til lyf sem fyrirbyggja sjálft ofnæmið, en mikilvægt er að einstaklingar með fæðuofnæmi þekki réttu úrræðin.
Bráðaviðbrögð geta verið væg, eins og til dæmis kláði eða húðútbrot. Þau geta einnig verið alvarleg og jafnvel lífshættuleg. Þar af leiðandi þarf meðferð að vera sniðin að einkennunum hverju sinni og einstaklingunum sjálfum.
Adrenalínpenni (til dæmis Epipen)
- Adrenalínpenni er notaður við bráðaofnæmi. Hann víkkar öndunarvegi, hægir á bólgusvörun og eykur blóðþrýsting og virkar á nokkrum mínútum. Gæta skal þess að hafa hann alltaf meðferðis og endurnýja eftir fyrningardag. Mikilvægt er að sá sem ætlar að nota pennan kunni það.
Antihistamín
- Antihistamín, til dæmis cetirizín, loratadín, desloratadin, er notað við vægari ofnæmiseinkennum eins og kláða, útbrotum eða nefeinkennum. Það fæst bæði lausasölu og með lyfseðli en nægir ekki við alvarlegum viðbrögðum.
Barksterar
- Baksterar, til dæmis prednisólon, eru gefnir sem töflur eða mixtúra eftir bráðaofnæmi. Þeir draga úr úr því að bólguviðbragð endurtaki sig. Baksterar eru aukameðferð en koma aldrei í stað adrenalíns.
Langtímameðferð og forvarnir
OIT (oral immunotherapy – ónæmingarmeðferð): Ónæmingarmeðferð er enn í þróun í mörgum löndum, en er notuð við ákveðin fæðuofnæmi, má nefna jarðhnetur, og mjólk. Meðferðin felur í sér að einstaklingur fær smáskammta af ofnæmisvaldi fæðu undir eftirliti. Aðferðin hentar ekki öllum og einungis unnin í samráði við lækni.
Góð ráð
- Alltaf hafa lyfin aðgengileg – sérstaklega adrenalínpenna
- Geyma lyf í réttu hitastigi og í upprunalegum umbúðum
- Gera meðferðarplan með lækni
- Fræðast og gera árlega endurmat – fylgja eftir hvort ofnæmið breytist eða hvort uppfæra þurfi meðferðina
- Hafa lýsingu á ensku um lyfjameðferð og ofnæmi við höndina í ferðalögum erlendis
|