Þeir sem hafa latexofnæmi geta fundið fyrir einkennunum með því að snerta latex, anda að sér latextrefjunum í loftinu eða jafnvel við krosssvörun. Latex finnst víða og margar hversdagsvörur innihalda það. Nefnum dæmi.
- Blöðrur
- Strokleður
- Smokkar
- Heimilishanskar
- Tannréttingarteyjur
- Sárabindi
Hvað er latexofnæmi?
Ofnæmisviðbrögð vegna latex skiptast í tvo flokka. Í fyrsta lagi er snertióþól sem lýsir sér með útbrotum, roða og kláða sem getur komið fram allt að 12-36 klukkustundum eftir snertingu við latex. Í öðru lagi er bráðaofnæmi. Það stafar af myndun mótefna (IgE) gegn latexi. Bráðaofnæmi fyrir latex er mun alvarlegri sjúkdómur en snertiofnæmið og getur verið lífshættulegt. Einkenninn eru helst kláði, roði, bólgur, hnerri og astmaeinkenni.
- Snertióþol stafar einkum af efnum sem bætt er út í latexið við framleiðsluna. Snertióþol er algengast á höndum en getur líka komið fram annarsstaðar á líkamanum. Þessi gerð ofnæmisviðbragða getur valdið miklum óþægindum en er ekki lífshættuleg.
- Bráðaofnæmi stafar af myndun mótefna (IgE) gegn latexi. Bráðaofnæmi fyrir latex er mun alvarlegri sjúkdómur en snertiofnæmið og getur verið lífshættulegt. Einkenninn eru helst kláði, roði, bólgur, hnerri og astmaeinkenni. Sjaldan verður ofnæmislost eða lífshættuleg einkenni eins og slæm andþyngsli og lækkun blóðþrýstings.
Einstaklingar geta verið misnæmir fyrir latexi. Þeir sem eru mjög næmir og verð fyrir miklu áreiti af latex geta fengið alvarleg einkenni. Hættan á alvarlegum einkennum er mest þegar latex kemst í snertingu við rök svæði líkamans, til dæmis varir (blása upp blöðru). Ofnæmisvakinn frásogast mjög hratt frá slímhúð inn í líkamann.
Latexagnir geta svifið í loftinu og valdið einkennum í öndunarfærum. Agnirnar festast við púðrið sem notað er í gúmmíhanska. Þegar hanskarnir eru notaðir berast þær með púrinu út í andrúmsloftið. Á þennen hátt kemst latex í snertingi við slímhúð í öndunarvegi og getur valdið einkennum frá nefi, lungum og augum. Mælst hefur mikil þéttni(magn) latexofnæmisvaka í lofti á skurðstofum. Notkun á hönskum án púðurs minnkar það magn af latexi sem kemst út í loftið.
Hlutir sem innihalda latex, sérstaklega hanskar, valda mismiklum ofnæmisviðbrögðum og getur það verið breytilegt eftir framleiðanda og frá einni framleiðslu til annarrar.
Hvað er latex?
Latex er mjólkurlitaður vökvi sem unninn er úr gúmmítrjám. Latex er notað til að gera hluti teygjanlegri, sterkari og endingarbetri. Latex er grunnefnið í gúmmíi. Það kemur úr safa trésins Hevea brasiliensis. Safanum er safnað með því að rista raufar í börk trésins, sem safinn seytlar eftir niður í safnker. Um leið og safanum er safnað er bætt í hann ammoníaki til að hindra kekkjun og sýklagróður. Lesa má meira hér.
Hvernig má greina latexofnæmi?
Oft er auðvelt að tengja latexofnæmi við einkennin, til dæmis þegar gúmmíhanskar valda snertiútbrotum (snertiurticaria). Tengsl annarra einkenna við latex geta oft verið torfundin. Ef grunur er um latexofnæmi er húðpróf fyrir latex fyrsta skrefið. Ef prófið er neikvætt þrátt fyrir sterkan grun má gera þolpróf með þeim hlut sem talinn er valda einkennunum. Einnig er hægt að mæla IgE mótefni fyrir latex í blóði. Slík próf hafa þó ekki verið talin eins næm og húðprófin. Húðprófin, og sérstaklega þolprófin, geta verið varasöm. Því ættu þeir einir að gera prófin sem hafa reynslu á þessu sviði.
Latex og fæða
Fólk með latexofnæmi getur fengið ofnæmiseinkenni við að borða ákveðna ávexti og grænmeti (krosssvör). Einnig má sjá lista fyrir hluti sem innihalda latex, þessi listi er ekki tæmandi. Munið að lesa á vörur hvort þær innihaldi latex. Helstu ávextir og grænmeti sem geta valdið ofnæmisviðbrögðum:
- Advocado
- Bananar
- Kastaníuhnetur
- Kíwí
- Epli
- Melónur
- Papaya
- Fíkjur
- Gulrætur
- Sellerý
- Kartöflur
- Tómatar
Hvernig má draga úr hættu af latexofnæmi?
Í eftirfarandi ráðleggingum er stuðst við álit starfshóps á vegum amerísku ofnæmislæknasamtakanna (The American Academy of Allergy Asthma and Immunology (AAAAI)):
- Að finna þá sem eru í áhættuhópum
- Að spyrja þá sem eru á leið í aðgerð um einkenni sem geta bent á latexofnæmi
- Að rannsaka sjúklinga í áhættuhópum og með grunsamleg einkenni fyrir latexofnæmi
- Að tryggja að þeir sem hafa latexofnæmi geti farið í aðgerðir án þess að lenda í snertingu við latex
- Að merkja þá sem hafa þekkt latexofnæmi með Medic Alert merkjum
- Að þeir sem fengið hafa alvarleg einkenni beri á sér adrenalín-sprautur (Epi-Pen) í öryggisskyni
Áhættuhópar
- Fólk með spina bifida eða fæðingargalla í þvagrás
- Heilbrigðisstarfsfólk
- Starfsfólk í gúmmíiðnaði
Áhættuþættir
- Bráðaofnæmi
- Ofnæmi fyrir ávöxtum (sérstaklega banönum og kiwi)
- Margar skurðaðgerðir
Heimild: Davíð Gíslason og Unnur Steina Björnsdóttir sérfræðingar hafa skrifað grein um Latexofnæmi - nýtt heilbrigðisvandamál. Hluti þessa vefs er samantekt úr þeirra grein.