Skordýrabit

Ofnæmi fyrir skordýrabiti er viðbragð líkamans við efnum sem þau seyta, oftast eitri eða munnvatni við bit eða stungu. Flestir fá væg einkenni, svo sem roða, bólgu og kláða á bitstað, en hjá sumum getur myndast alvarlegt ofnæmi sem nær út fyrir bitstaðinn. Það veldur þá útbreiddum bólgum eða jafnvel bráðaofnæmisviðbrögðum.

Ofnæmi tengist einkum býflugum og geitungum, en einnig moskítóflugum og öðrum bitmýum. Viðbrögðin ráðast af næmi einstaklingsins og magni eiturs eða bitefna.

Mikilvægt er að greina á milli staðbundinna einkenna og raunverulegs ofnæmis, þar sem alvarleg viðbrögð geta krafist tafarlausrar meðferðar. Rétt fræðsla og undirbúningur geta komið í veg fyrir alvarlegar afleiðingar.

Einkenni 

  • Staðbundin bólga, roði og kláði
  • Útbrot eða bólga sem breiðist út fyrir bitstað
  • Svimi, öndunarerfiðleikar, hraður hjartsláttur eða bjúgur í andliti og hálsi.
  • Í sjaldgæfum tilfellum: bráðaofnæmi (anaphylaxis)

Greining

  • Læknir metur sögu, einkenni og mögulega útsetningu
  • Blóðpróf eða húðpróf geta greint ofnæmið

Meðferð

  • Kæling, lyf gegn kláða eða bólgu við vægum einkennum
  • Adrenalínpenni (EpiPen) við alvarlegum viðbrögðum
  • Ofnæmismeðferð (immunotherapy) getur minnkað næmi til framtíðar

 

Góð ráð

Gott getur verið að forðast ilmvötn og litrík föt utandyra, þar sem þau laða að skordýr. Notaðu skordýrafælu og lokaðu drykkjarílátum úti. Hafðu adrenalínpenna og fræðslu um notkun ef þú ert með greint ofnæmi. Leitaðu til læknis ef einkenni versna hratt eftir stungu eða bit.