Rykmauraofnæmi

Rykmauraofnæmi veldur því að ónæmiskerfið þitt bregst við próteinum sem finnast í rykmaurum. Einkennin eru stíflur, nefrennsli, hnerri og vot augu. Lyf og að forðast rykmaura er lausnin við rykmauraofnæminu. Einkennin eru meðal annars:

  • Þrengsli
  • hósti
  • Kláði í munni, nefi og hálsi
  • Nefrennsli
  • Rauð augu

Hver er sagan?

Um hundrað ár eru nú liðin síðan menn áttuðu sig á því að húsryk gæti valdið ofnæmi. Þetta kom í ljós þegar vatnslausnir frá ryki úr koddum og teppum framkölluðu jákvæð húðpróf hjá sjúklingum með astma. Menn gerðu sér líka ljóst að í ryki væru alls konar óhreinindi, sem valdið gætu ofnæmi. Það nægir að nefna flösu af hundum og köttum, frjókorn sem berast inn í hús að sumrin og myglu sem gjarnan er fylgifiskur raka í húsnæði. Mörgum árum síðar sýndu Japanir fram á maura í húsryki af tegundinni Dermatophagoides. Þetta var 1964 og sama ár var bent á að rykmaurarnir gætu líklega valdið ofnæmi.


Hver eru einkennin?

Einkenni rykmauraofnæmis eru þrálátar bólgur í nefi sem valda hnerrum, nefrennsli og stíflum; astmi sem oft er vægur og lýsir sér þá með hósta og urg fyrir brjósti samfara áreynslu eða kvefpestum; kláði í augum og húð og versnun á barnaexemi geta tengst rykmauraofnæmi.

Þess ber líka að geta að stundum er rykmauraofnæmið fylgifiskur ofnæmis af ýmsum öðrum orsökum og verður þá ekki greint á milli hvað veldur hverju og oftast er þá um að ræða miklu þungbærari sjúkdóma.


Hver er tíðni rykmauraofnæmis?

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu algengt rykmauraofnæmið er. Það er talið afskaplega algengt, jafnvel svo að þriðjungur Íra sé með mótefni og meira en fjórðungur þjóðarinnar í sjö löndum af 15 sem þátt tóku í Evrópurannsókn Lungu og heilsu og birt var í upphafi aldarinnar. Þarna voru Íslendingar lægsti á blaði eins og á mörgum öðrum sviðum í þessari rannsókn eða níu af hundraði.


En hvað eru rykmaurar?

Rykmaurarnir eru aðeins um 0,3 mm á lengd og eru því ekki sýnilegir með berum augum. Þeir teljast til áttfætlumaura og eru einna líkastir skjaldböku í laginu þegar þeir eru skoðaðir með augum leikmanns gegnum smásjá. Á mælikvarða okkar mannanna er æviskeið þeirra stutt; aðeins 100 - 150 dagar. Hver kvenmaur getur orpið allt að 80 eggjum um ævina og þeir fjölga sér ört ef aðstæður eru hagstæðar.

Orðið dermatophagoides þýðir sá sem étur húð. Það segir sína sögu. Rykmaurar lifa gjarnan á húðflyksum af mönnum og skepnum og þeir þurfa hita og raka til að njóta sín vel. Best þrífast þeir við hitastig kringum 25° C og raka á bilinu 50-80%. Hvergi eru því skilyrði fyrir þá ákjósanlegri en í hlýju rúmi þar sem nóg er að bíta og brenna. Þó geta þeir einnig þrifist í teppum og tauklæddum húsgögnum, einkum ef raki er í húsinu. Rakinn er þeim svo mikilvægur að þeir tímgast ekki þegar rakastigið fer niður fyrir ákveðið mark.

Í rykmaurum eru að minnsta kosti 30 eggjahvítusambönd sem valda mótefnasvörun og ofnæmi. Þau kallast ofnæmisvakar. Þau dreifast út í rykið þegar rykmaurinn drepst og leysast sundur. Mest er af ofnæmisvökum í driti mauranna. Við umgang og þegar búið er um rúm þyrlast rykið upp og kemur í snertingu við slímhúðina í augum og öndunarfærum. Líklega verður þó snertingin mest við að bylta sér í rúminu.


Er hægt að forðast rykmaura?

Rykmauar eru viðkvæmir fyrir breytingum á raka og því er æskilegt að halda rakastiginu fyrir neðan 45%. Það hægir á tímgun mauranna.

  • Lífsskilyrði fyrir rykmaura eru best í rúmdýnum og koddum. Kæling niður í -18°C í tvo sólahringa eða upphitun í 45° í tvo tíma drepur maurana. Þannig má drepa maurana í sænginni og koddanum með kælingu eða upphitun

Önnur aðferð til að halda maurunum í einskonar fangelsi er að vefja dýnuna og koddann í plast og sjá hvort einkennin minnka við það. Beri þetta árangur þá eru til sérstök ver (impermeable covers) sem setja má á dýnuna, sængina og koddann. Þau eru þannig gerð, að rykmaurar og aðrir ofnæmisvaldar komast ekki í gegnum þau. Annað hvort er um að ræða þétt ofinn vef með þráðbili minna en 1/100 úr millimetra og dregur það 15-65 falt úr rykmaurafjöldanum eða polyuretane-himnu innan á verinu.

  • Þvottur við 60°C. drepur maurana. Vikulegur þvottur dregur því verulega úr fjölda rykmaura í rúmfatnaði

Ryksugur og loftsíur gera takmarkað gagn. Ryksugur þurfa sérstakan filter (HEPA filter) og tvöfaldan ryksugupoka til að halda í sér fíngerðu ryki. Ryksugun er því vafasöm aðferð til að halda rykmaurum í skefjum. Sama er að segja um kemískar aðferðir þar sem lúsameðul á borð við benzyl bensoatis og tanninsýru hafa verið notuð til að drepa maura. Hvorugt hefur komið að gagni.

Koddar og sængur úr gerviefnum safna hraðar í sig ofnæmisvökum frá rykmaurum en koddar og sængur úr dún og fiðri. Sængur úr gerviefnum má þvo, en eru að öðru leyti síst heppilegri en dúnsægur fyrir fólk með rykmauraofnæmi.

Lengi var því trúað að rykmaurar tímguðust betur í koddum og sængum úr fiðri og dún en úr öðrum efnum. Því voru stundum auglýstar ofnæmisfríar sængur úr gerviefnum. Rannsóknir seinni ára benda til þess að þessu sé alveg öfugt farið og að rykmaurar tímgist verr í sængum og koddum úr dún og fiðri. Í einni rannsókn var fylgst með því á þriggja mánaða fresti í 12 mánuði hvernig rykmaura fjölguðu sér í nýjum koddum úr gerviefni og koddum úr fiðri. Í öllum mælingunum var 4-5 sinnum meira magn af rykmaurum í koddunum úr gerviefni en fiðurkoddunum.

Önnur rannsókn miðaði að því að kanna orsakir astma meðal unglinga í Sheffield í Englandi. Niðurstaða hennar var sú að þeir unglingar sem svæfu við kodda úr gerviefnum væru í 2,78 sinnum meiri hættu að fá urg fyrir brjósti en þeir unglingar sem svæfu við fiðurkodda.

Varast beri að draga allt of miklar ályktanir af einstökum rannsóknum en fleiri rannsóknir hníga í sömu átt og þær virðast alveg kollvarpa þeirri trú að gerviefni séu betri í sængurfatnað þeirra sem eru með rykmauraofnæmi en dúnsængur og dúnkoddar.


Góð ráð til að forðast rykmaura

  • Notaðu ofnæmisprófuð rúmföt
  • Þvoðu rúmfötin vikulega á 60 gráðum og þurrkaðu á háum hita í þurrkara
  • Þurrkaðu reglulega af með votri tusku

 

Heimild: Textinn hér er unnin úr grein fréttablaðs Astma og ofnæmisfélagsins frá febrúar 2004 eftir Davíð Gíslason, yfirlæknir í ofnæmissjúkdómum Lyflækningasviði I, LSH-Fossvogi. Þar má sjá vísun í heimildir.