Astma- og ofnæmisfélagið tekur þátt í vitundarvakningu um ilmefnanotkun
Astma- og ofnæmisfélag Íslands hefur ákveðið að taka þátt í samstarfsverkefni Samtaka um áhrif umhverfis á heilsu (SUM) um vitundarvakningu varðandi notkun ilmefna á vinnustöðum og opinberum svæðum. Markmið verkefnisins er að draga úr óþægindum og heilsutengdum vandamálum sem ilmefni geta valdið, sérstaklega fyrir fólk með astma og ofnæmi.
SUM hefur unnið að hönnun jákvæðra og hvetjandi skilaboða sem minna á ilmfrjáls svæði, og hyggjast samtökin afhenda fyrstu skilti formlega á næstunni. Fyrstu skiltin eru nú þegar prentuð og komin í ramma. Framkvæmdastjóri ÖBÍ mun taka við þeim fyrir stjórnarfund samtakanna.
Astma- og ofnæmisfélagið hefur tekið virkan þátt í samtalinu frá upphafi og mun kynna verkefnið í næsta tölublaði AO. Samtökin fá jafnframt aðstoð SUM við efnisöflun og munu aðilar áfram vinna sameiginlega að frekari útbreiðslu skiltanna.
Auk ÖBÍ er stefnt að því að setja upp skilti hjá fjölmörgum stofnunum, þar á meðal Heilbrigðisráðuneytinu, Umhverfis- og orkustofnun, sundlaugum í Reykjavík, skólum, íþróttafélögum og öðrum opinberum aðilum.
Markmiðið er að skapa heilnæmara umhverfi og tryggja að boðskapurinn nái sem víðast.
Fríða Rún Þórðardóttir, formaður AO, segir að félagið sé þakklátt fyrir samstarfið og hlakki til að taka þátt í framhaldinu:
„Við viljum gjarnan vera með í þessu mikilvæga verkefni og erum þakklát fyrir gott samstarf og frumkvæðið sem SUM hefur sýnt.“
Hægt er að skoða skiltin og fylgjast með verkefninu á vef og samfélagsmiðlum SUM.
