Styrkveiting í samnorrænt verkefni

Tonie Gertin Sörensen, hjúkrunarfræðingur á Barnaspítala Hringsins, fékk í byrjun árs styrk úr styrktasjóði Astma- og Ofnæmisfélags Íslands en styrkinn mun hún nota til að taka þátt í sam norrænu ofnæmisfræði verkefni.

Tonie er þátttakandi í faghópi hjúkrunarfræðinga sem allir starfa við meðhöndlun ofnæmis á Norðurlöndunum. Faghópurinn ber heitið NANA, Nordic allergy nurses association, og hittist á tveggja til þriggja ári fresti á mismunandi stöðum á Norðurlöndunum. Á fundum sínum fer hópurinn yfir helstu þætti sem snúa að hjúkrun sem tengist ofnæmi og þá allt í senn fæðu-, frjókorna- og dýraofnæmi.

Á komandi faghópsfundi sem haldinn verður með vorinu, mun Tonie leggja fram gögn og tölulegar upplýsingar varðandi ofnæmi á Íslandi og verður þá hægt að bera þær upplýsingar saman við álíka upplýsingar frá hinum Norðurlöndunum. Verður áhugavert að sjá þær niðurstöður. Við náum því miður ekki að birta þær í þessu blaði þar sem faghópsfundurinn hefur ekki enn farið fram, en munum greina frá niðurstöðum í næsta blaði. Tonie mun hafa nóg að gera í ferðinni, því eftir ráðstefnuna er stefnan tekin á að heimsækja Astma og ofnæmisfélagið í Danmörku og fáum við eflaust að fylgjast með því ferðalagi líka.

 

Fréttin birtist fyrst í 19. árg 1. tbl. 2025 tímariti Astma- og ofnæmisfélags Íslands