Sérnám í nafni Hallbjarnar Kristinssonar

Í byrjun árs stofnaði Astma- og ofnæmisfélag Íslands minningarsjóð um Hallbjörn Kristinsson og er þessum nýja sjóði ætlað að styrkja lækna til sérnáms í ofnæmis-
og ónæmisfræðum. AO tók einnig þátt í að fjármagna ritun námsskrár fyrr á árinu til að leggja grunn að stofnun sérnámsins. Marklýsing sérnámsins í ofnæmis- og ónæmislækningum var samþykkt af Mats- og hæfnisnefnd Heilbrigðisráðuneytisins í september 2024. Í janúar 2025 samþykkti Landspítalinn að hafið yrði sérnám í ofnæmis- og ónæmislækningum fullorðinna hér á landi.

Námið verður opið þeim sem lokið hafa þremur árum í lyflækningum með MRCP gráðu eða sambærilegu námi, metið af kennsluráði. Gert er ráð fyrir tveggja ára námi hér á landi og að þriðja árið verði tekið við viðurkennda kennslustofnun erlendis til að útskrifast sem sérfræðingur í ofnæmis- og ónæmislækningum. Þegar hefur verið undirrituð viljayfirlýsing um þriðja árið við Yale háskóla í Bandaríkjunum og samningaviðræður eru í gangi við háskólasjúkrahús í Svíþjóð. Einnig er hægt að sækja um sérnám í ofnæmis- og ónæmislækningum sem undirsérgrein við fullt 5 ára sérnám í lyflækningum. Kristján Erlendsson læknir er kennslustjóri námsins og var hann spurður hvaða þýðingu þetta sérnám hefði og gefum við honum orðið.

Ónæmiskerfið er eitt þeirra kerfa þar sem þekking hefur farið stórkostlega vaxandi á síðustu árum. Ekki bara er varðar grunnþekkingu á byggingu þess en eftir því sem meira er vitað um starfseiningar þess, svo sem hina ýmsu flokka hvítfruma, mótefni og alls konar boðefni, kemur meira og meira í ljós hvernig þessir þættir vinna saman að því að framkalla eðlilegt og nauðsynlegt ónæmissvar en ekki síður að ljúka svarinu þegar þess er ekki lengur þörf. Ónæmiskerfið er talið hafa möguleika til að bregðast við nánast hverju sem er úr umhverfinu og er þar t.d. hvað skýrast eðlilegt svar við bakteríusýkingu. Kerfið bregst við á sértækan máta, sem er sérhannað fyrir tiltekna bakteríu og útrýmir henni, en þannig er jafnframt mikilvægt að hægt sé að slökkva á svarinu þegar hlutverki þess við t.d. ákveðna sýkingu er lokið.

Þannig gæti kerfið t.d. myndað ónæmi og ónæmissvar við eigin vef, en til staðar eru svo ákveðnir ferlar sem hindra að slíkt gerist við eðlilegar aðstæður. Eins er mikilvægt fyrir daglega heilsu að kerfið sé ekki að ráðast gegn meinleysislegum þáttum í umhverfinu svo sem eins og grasi og köttum. Þegar þessa stjórnun brestur verða til sjúkdómar sem sumir fá; sjálfsónæmissjúkdómar og ofnæmi. Mikið hefur áunnist á síðustu árum til þess að skilja, greina og meðhöndla slík vandamál. En þar líkur ekki sögunni. Lengi hafa verið þekkt vandamál þar sem ákveðnir sjúkdómar hafa farið þannig með stjórnun ónæmiskerfisins að einstaklingar hafa bara ekki náð sér eftir það sem kannski hefði átt að vera afmörkuð sýking en veikindi halda áfram. Þessu er t.d. lýst snemma á 18. öldinni og verður kannski fyrst tekið alvarlega hérlendis með Akureyrarveikinni svo nefndu.

Á fundi í Háskóla Íslands þann 1. mars sl. var fjallað um eitt svona fyrirbæri, þ.e. long- Covid. Hópur einstaklinga, jafnvel þúsundir hérlendis ná sér einfaldlega ekki eftir Covid sýkingu. Einkennin eru óljós, gjarnan margvísleg og kannski hefur heilbrigðiskerfið okkar, eins og svo víða annars staðar, ekki náð að skilja hvað er á seyði og hvernig skuli brugðist við. Sjúklingum finnst því sem ekki sér hlustað á þá og þeim ekki sinnt. En það eru í þjóðfélagi okkar þegar fyrir hópar sem búa við sömu upplifun. Þeir með Akureyrarveikina / ME, krónískt mygluóþol og á síðustu 2 árum óviðurkvæmileg svörun ónæmiskerfi ákveðinna einstaklinga við ígrædda íhluti, brjóstapúða, stoðnet, nagla ýmis konar og jafnvel húðflúr. Sérstök móttaka var opnuð á Akureyri í ágúst mánuði sl. (Akureyrarklíníkin) og þar kom fram af hálfu forstjóra Landspítalans, sem hann endurtók á tjéðum fundi í HÍ þann 1. mars að Landspítalinn væri að undirbúa slíka móttöku.

Með fjölgun lækna í sérgreininni sbr. að ofan (sérnám) og með auknum rannsóknum á þeim sjúkdómum sem að ofan er getið verður vonandi hægt að sinna betur þeim sjúklingum sem við þennan vanda glíma. Þá er ótalið mikilvægi hópa og félaga eins og um er getið í upphafi þessarar greinar t.d. er varða fræðslu og dreifingu þekkingar, en stórir hópar hafa þegar komið að málum til að greiða fyrir framförum á þessu sviði. Þá hefur tekist að koma á erlendum tengslum sem geta komið að góðum notum við skipulagningu og framkvæmd alþjóðlega rannsóknaverkefna því í raun er um að ræða alþjóðleg vandamál þar sem við getum lagt af mörkum til framfara.

Í takt við það má að lokum nefna að Ónæmisfræðideildin á Landspítalanum fékk fyrir 2 árum viðurkenningu sem “Center of Excellence” af hálfu World Allergy Organization, sem mun frekar greiða fyrir samvinnu við sambærilegar stofnanir sem ekki mun af veita!

 

Fréttin birtist fyrst í 19. árg 1. tbl. 2025 tímariti Astma- og ofnæmisfélags Íslands