Rebekka Sigrún fær styrk úr minningarsjóði Hallbjörns

Rebekka Sigrún D. Lynch hefur hlotið styrk úr minningasjóði Hallbjörns Kristinssonar. Styrkurinn verður nýttur til fjögurra vikna námsdvalar í Sádí Arabíu, þar sem hún mun stunda nám á göngudeild fyrir börn með ónæmisgalla. Hún veitti styrknum viðtöku á málþingi Astma- og ofnæmisfélagsins í hringsal Barnaspítalans.

Fríða Rún Þórðardóttir afhenti henni skjöld um styrkinn ásamt ekkju Hallbjörns, Sólveigar Óskarsdóttur. Benedikt Friðriksson fékk þá einnig skjöld. Hann var sá fyrsti sem fékk styrk úr minningarsjóðnum. Þau hafa bæði stundað sérnám sitt í ofnæmis- og ónæmislækningum hér á landi. Benedkit sá fyrsti og Rebekka önnur.

Rebekka Sigrún er fædd í Reykjavík árið 1989. Hún er gift Guðbirni Jenssyni og á með honum tvö börn. Hún útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík og fór þaðan í Læknadeild Háskóla Íslands. BSc ritgerð hennar var rannsókn, titluð: „Clinical diagnoses and characteristics of women entering the Reykjavik Emergency Departments during the economic collapse in 2008“. Eldri rannsókn hafði sýnt fram á aukna tíðni hjartaáfalla í "hrunvikunni" en Rebekka skoðaði hvort hægt væri að greina þessar konur frekar í sundur með tilliti til áhættuþátta og hvort einhverjar þeirra væru greindar með svokallað „broken heart syndrome“ sem er streitutengt hjartaáfall.
 
Þessi vísinda vinna kveikti áhuga hennar á frekari rannsóknum og er hún núna að leggja lokahönd á doktorsverkefnið sitt sem fjallar um streituferla og hjarta- og efnaskiptaprófíl þolenda ofbeldis.
 
Í gegnum læknanámið hefur Rebekka haft mikinn áhuga á ónæmiskerfinu, og sérstaklega áhuga á langvinnum sjúkdómum sem koma og fara. Einnig er hún sérstaklega áhugasöm um samskipti við sjúklinga og mikilvægi góðs meðferðarsambands.
 
Rebekka hóf nám í ofnæmis- og ónæmislækningum 1. júní síðastliðinn eftir þriggja ára nám í almennum lyflækningum við Landspítala. Styrkurinn úr minningasjóði Hallbjörns Kristinsson verður nýttur til fjögurra vikna námsdvalar í Sádí Arabíu, þar sem hún mun stunda nám á göngudeild fyrir börn með ónæmisgalla. Fyrirhuguð útskrift Rebekku úr sérnáminu er árið 2028.