Nýtt upplýsingamyndband ætlað unglingum

Nýverið var birt á heimasíðu Astma- og ofnæmisfélagsins upplýsingamyndband sem ætlað er til kynningar á því hvernig er að lifa með ofnæmi eða óþol. Myndbandinu er annars vegar skipt upp í fræðslu til unglinga um ofnæmi og óþol og hins vegar ítarefni þar sem rætt er m.a við læknana Sigurveigu Þ. Sigurðardóttur og Michael Clausen auk þeirra Fríðu Rúnar Þórðardóttur og Tonie Gertin Sörensen frá Astma- og ofnæmisfélaginu. Myndbandið er framleitt af framleiðslufyrirtækinu Skot Productions ehf en fjármagnað af fræðslu- og styrktarsjóði um bráðaofnæmi.

Það eru þau Arnaldur Halldórsson og Emelía Þórunn Egilsdóttir sem koma fram í myndbandinu sem ætlað er fyrir unglinga en þar lýsa þau á skemmtilegan hátt hvað þarf að hafa í huga í skólanum, íþróttum og ekki síst í barnaafmælum sem er veruleiki sem mörg börn og foreldrar einstaklinga með ofnæmi kannast við. „Myndbandinu er fyrst og fremst ætlað að auka þekkingu ungs fólks á ofnæmi; gera þeim grein fyrir hvernig á að bregðast við ef einstaklingur með bráðaofnæmi finnur fyrir einkennum og almennt að auka skilning þeirra á daglegu lífi þeirra sem eru með ofnæmi,“ segir Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir, framleiðandi myndbandanna hjá Skoti.

„Svo vill þannig til að dóttir mín greindist nýverið með astma og ofnæmi auk þess sem dóttir samstarfsmanns míns er með bráðaofnæmi, þannig að málefnið var okkur skilt. Það skiptir miklu máli að upplýsingar séu aðgengilegar bæði fyrir börn og foreldra þeirra sem greinast með ofnæmi. Ég tala nú ekki um á fyrstu vikunum þegar maður er uppfullur af spurningum og er að reyna að læra á þetta allt saman,“ segir Arnþrúður eða Addú eins og hún er gjarnan kölluð. Einar Egilsson leikstýrði myndböndunum og Baldvin
Vernharðsson stjórnaði kvikmyndatöku.

„Við lögðum mikið upp úr því að myndbandið væri í augnhæð við unglinga, ef svo má að orði komast, að það væri á tungumáli sem unga fólkið tengdi við. Þetta á ekki að vera einhver ræða um hvað má og hvað má ekki eða að það þurfi að haga sér á einhvern ákveðin hátt við einstaklinga með ofnæmi. Þetta snýst um tillitsemi – að það sé jafn sjálfsagt að taka tillit til einstaklings með ofnæmi eins og hvers annars og auðvitað líka að kunna að bregðast við ef einstaklingur verður útsettur fyrir ofnæmisvaldi“ segir Einar.
Áætlað er að myndböndin verði aðgengileg á heimasíðu Astma- og ofnæmisfélagsins og þau aðgengileg skólum, íþróttafélögum eða öðrum sem vinna með börnum eða
unglingum.

„Við vonumst nú fyrst og fremst til þess að myndböndin verði til þess að auðveldara verður að afla sér upplýsinga um ofnæmi og að tillitsemi og skilningur fólks og ekki síst
barna aukist fyrir vikið,“ segir Addú að lokum.

 

Fréttin birtist fyrst í 19. árg 1. tbl. 2025 tímariti Astma- og ofnæmisfélags Íslands