Félagið setur nýjan vef í loftið. Stefnt er að því að það verði fyrir sumar. Nýtt útlit, ný nálgun en sömu vönduðu handtökin og fræðsla fyrir félagsmenn.
„Vefur er eins og tré. Á þau koma nýir sprotar, svo þarf að grisja, klippa og snyrta svo þau dafni sem best. Já, vefur er lifandi. Það þarf endalaust að ritskoða og endurnýja efnið. Þannig verður nýi vefurinn okkar í sífelldri þróun,“ segir Tonie Gertin Sörensen, starfsmaður Astma- og ofnæmisfélagsins.
Nýr vefur félagsins lítur brátt dagsins ljós. Textinn hefur verið uppfærður, eldri fréttir yfirfærðar á nýja vefinn – svo enn verður hægt að nálgast þær. Hann heldur því sögulegu gildi þótt nýtt efni flæði inn.
„Draumurinn er að vefurinn verði kominn í loftið fyrir sumar. Félagið varð fimmtíu ára í haust, 2024 og þá stóð til að gefa vefinn út. En eins og oft vill verða dróst vinnan. Við fengum svo þá frábæru hugmynd að hóa í Gunnhildi og fá hana til að draga okkur að landi.“
Margir lagt mikið á sig
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir hefur nú grúskað í textanum. „Já, þetta er virkilega áhugavert og gaman að sjá eljuna í félaginu. Einnig hvað fólk hefur lagt mikið á sig til að upplýsa félagsmenn og halda utan um félagið. Nú er að koma efninu öllu á nýja vefinn svo við getum öll notið fræðslunnar og fylgst með, mótað að starfsemi félagsins.“
Vefurinn verður með nýju sniði. Hann er aðgengilegri, nútímalegri. Tonie segir að það hafi verið orðið aðkallandi að fá nýjan vef. „Við vorum að lenda í því með gamla vefinn okkar að fólk gat ekki opnað hlekki. Það fékk ábendingar um að síðan væri óörugg. Með nýrri síðu aukum við öryggið. Svo er virkilega gaman að sjá nýtt, ferskt útlit á honum.“
Viðmótið notendavænt
Astma- og ofnæmisfélagið fór að ráðum annarra öflugra félagasamtaka og valdi að setja vefinn upp í Moya vefumsjónarkerfinu. „Viðmótið er notendavænt,“ segir Tonie. „Það skiptir máli, bæði að lesendur finni efnið hratt og vel en einnig að við sem munum vinna með vefinn getum auðveldlega miðlað því efni sem við viljum til ykkar félagsmanna.“
Hún er spennt fyrir nýja vefnum. „Já, ég bæði vona og trúi að félagsmenn verði ánægðir með nýja vefinn og taki þátt í að hlúa að honum og sjá hann vaxa og dafna.“
Spjallmenni verður á nýju síðunni
„Spjallmenni Astma- og ofnæmisfélags Íslands veitir áreiðanleg svör um astma, exem og fæðuofnæmi. Markmið þess er að styðja fólk með þessar áskoranir með fræðslu, hagnýtum ráðum og uppfærðum upplýsingum um nýjustu meðferðir og forvarnir,“ svarar spjallmennið sjálft spurt hvað það geri á nýju síðu félagsins.
„Spjallmennið byggir á traustum heimildum, þar á meðal efni frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, og getur svarað spurningum um allt frá daglegri meðhöndlun einkenna til þess hvernig best sé að forðast ofnæmisvaldandi efni. Hvort sem um ræðir foreldra barna með ofnæmi, einstaklinga sem glíma við langvinna sjúkdóma eða fagfólk sem leitar fræðslu, þá er spjallmennið til staðar til að veita aðstoð,“ segir það.
„Þú getur alltaf leitað til okkar – hvar og hvenær sem er!“
Fréttin birtist fyrst í 19. árg 1. tbl. 2025 tímariti Astma- og ofnæmisfélags Íslands