Ný sjálfvirk tækni breytir frjókornamælingum

Á Íslandi höfum við fylgst með magni frjókorna í andrúmsloftinu í áratugi með hefðbundnum Burkard-frjókornagildrum, í Reykjavík síðan 1988 og á Akureyri frá 1998. Þannig hafa fengist dýrmæt gögn um frjókorn í lofti yfir árið en vissir ókostir fylgja notkun gildranna. Tafir á úrvinnslu gagna við hefðbundna mælingu hafa oft verið helsti ókosturinn, þar sem telja þurfti frjókorn handvirkt í smásjá, ferli sem gat tekið allt að sjö daga. Þessar tafir ollu því að ofnæmissjúklingar fengu ekki upplýsingar nógu hratt til að bregðast við  reytingum á magni frjókorna í lofti á áhrifaríkan hátt. Sem betur fer er ný sjálfvirk tækni fyrir frjókornaeftirlit að breyta þessu. Slík kerfi veita rauntímagögn og gefa tafarlausa innsýn í frjókornamagnið. Þetta hjálpar ekki aðeins einstaklingum að stjórna ofnæmi sínu betur, heldur dregur einnig úr heilbrigðiskostnaði og bætir lýðheilsu.

Þróun sjálfvirkra frjókornaeftirlitsmæla hefur aukist verulega á síðustu árum—árið 2018 voru einungis átta slík tæki til um heim allan, en árið 2024 hafði þeim fjölgað í 73, samanborið við 565 hefðbundna handvirka mæla sem enn eru í notkun. (sjá kort) Með stuðningi Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins höfum við nú tekið stórt skref fram á við með innleiðingu sjálfvirkra frjókornamælitækja. Tvær slíkar stöðvar hafa verið settar upp á Íslandi, í Reykjavík (í maí 2024) og á Akureyri (í júlí 2022).

Þessar stöðvar nota nýjustu tækni til að greina frjókorn í rauntíma, sem gerir okkur kleift að veita nákvæmari upplýsingar fyrr til bæði almennings og vísindasamfélagsins. Sjálfvirkar frjókornamælingar voru innleiddar á Íslandi með það að markmiði að fylgja nýjustu tækniþróun í loftgæðagreiningu, bæta skilvirkni og tryggja að Ísland sé í fremstu röð hvað varðar ofnæmisvöktun. Með aðeins tvo loftlíffræðinga starfandi hérlendis gerir sjálfvirkni okkur kleift að veita betri þjónustu við almenning og nýta tíma okkar betur til rannsókna. Einnig veita sjálfvirk mælitæki stöðugar, nákvæmar og tafarlausar upplýsingar um frjókornamagn, sem nýtist bæði vísindamönnum og einstaklingum með ofnæmi. Þannig getum við dregið úr óvissu varðandi hættu á því að fá alvarleg ofnæmiseinkenni og varað fólk við nógu snemma til að hjálpa fólki að stjórna einkennum sínum á áhrifaríkari hátt.

Gögn frá sjálfvirku mælitækjunum eru birt í rauntíma á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar yfir frjókornatímabilið. Þau eru uppfærð á klukkustundar fresti og birt sem línurit, þar sem hægt er að smella á punkt í línuritinu til að fá upplýsingar um dagsetningu, tíma og fjölda greindra frjókorna. Mælingarnar eru sýndar fyrir bæði Akureyri og Reykjavík og notendur geta aðlagað tímabil skoðunar með því að velja „Síðasti mánuður“ eða „Frá upphafi“. Einnig er hægt að velja um að skoða öll frjókorn eða einblína á ákveðnar tegundir. Nýjustu niðurstöður benda til þess að birki, gras, elri, fura og ösp séu algengustu frjókornin í mælingum okkar.

Kerfið veitir jafnframt upplýsingar um aðrar svifagnir í andrúmsloftinu, svo sem vatnsdropar og ryk. Þegar við hófum sjálfvirkar mælingar höfðum við miklar væntingar. Ísland hefur tiltölulega fáar frjókornategundir í lofti, sem virtist henta vel fyrir sjálfvirk skönnunarkerfi. Hins vegar sýndu fyrstu niðurstöður að tæknin þarfnast stöðugrar aðlögunar að íslenskum aðstæðum. Lítið magn frjókorna getur valdið því að erfiðara er að mæla þau fáu sem tækin nema og þótt fá frjókorn séu jákvæð fyrir ofnæmissjúklinga, gera þau mælingar erfiðari þar sem skynjarar þurfa að vera sérstaklega næmir til að greina þessi fáu frjókorn. Aðlögun tækjanna tekur tíma og við höfum þurft að betrumbæta flokkunarkerfi okkar og greiningaraðferðir til að tryggja að við fáum sem nákvæmust gögn. Við lærum stöðugt af reynslunni og stillum tækin samkvæmt því. Árið 2025 mun flokkun frjókorna breytast mikið og um leið munu bæði nákvæmni og fjölbreytni mælinga aukast.

Sumarið 2024 tóku íslenskir vísindamenn virkan þátt í alþjóðlegum rannsóknum á loftbornum frjókornum og þróun sjálfvirkra mælitækja. Við tókum meðal annars þátt í World Aerobiology 2024, alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í Vilníus í Litháen. Þar sameinaðist 8. Evrópuþing loftlíffræðinga, 12. Alþjóðaráðstefna loftlíffræðinga og 5. Heimsþing um ragweed-ofnæmi.

Á þessari ráðstefnu kynntum við nokkrar mikilvægar rannsóknir, þar á meðal:

  1.  „Tvö ár af notkun SwisensPoleno Mars á Íslandi“ – Yfirlit yfir fyrstu tvö ár sjálfvirkra mælinga hérlendis,
    áskoranir og niðurstöður.
  2.  „Langdrægur flutningur birkifrjókorna til Íslands – Brautryðjendarannsókn“ – Greining á því hvernig frjókorn
    berast með loftstraumum frá meginlandi Evrópu.
  3.  „Samanburður á gras- og birkifrjókornatímabilum (1998–2023): Akureyri (65°N) vs. Kraká, Póllandi (50°N)“
    – Rannsókn á áhrifum veðurfars og loftslagsbreytinga á frjókornatímabil.
  4. „Frá landi til lofts: Hvernig landnýtingarmynstur á Íslandi birtast í magni frjókorna í andrúmslofti“
    – Rannsókn á tengslum gróðurbreytinga og frjókornaútbreiðslu í andrúmslofti.

Við vorum einnig meðhöfundar að nokkrum öðrum erindum, þar á meðal:
1. „Loftlíffræðisamvinna á Norðurlöndum: Nýjar hugmyndir, nútímatækni og nýsköpun“
2. „Fyrsta evrópska endurgreining á frjókornum frá ofnæmisvaldandi trjám“

Þessar rannsóknir sýna hvernig Ísland er að leggja sitt af mörkum í alþjóðlegri þróun loftlíffræðirannsókna. Með áframhaldandi fjárfestingu í tækni og samvinnu við erlenda sérfræðinga getum við haldið áfram að bæta eftirlit með frjókornum á Íslandi og veitt betri upplýsingar fyrir almenning. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á frjókornamælingum að fylgjast með rauntímagögnum á vefsíðu okkar og senda okkur endurgjöf. Þannig getum við saman bætt mælingar og aukið skilning á áhrifum frjókorna á heilsu fólks.

Ewa Maria Przedpelska-Wasowicz,
loftlíffræðingur hjá Náttúrustofnun

 

Fréttin birtist fyrst í 19. árg 1. tbl. 2025 tímariti Astma- og ofnæmisfélags Íslands