Lungnasamtökin veittu þrjá styrki úr vísindasjóði sínum

Styrkur úr Vísindasjóði Lungnasamtakanna 2024 var afhentur mánudaginn 15. janúar 2025. Þetta er í annað skipti sem styrkur er veittur úr sjóðnum sem fram fór við hátíðlega athöfn í húsnæði Endurhæfingastöðvar hjarta- og lungnasjúklinga (HL-stöðinni) Hátúni 14 í Reykjavík.

Vísindasjóður Lungnasamtakanna var stofnaður 2017. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir á orsökum lungnasjúkdóma, forvörnum og meðferð sem bæta munu lífsgæði lungnasjúklinga. Mikilvægur þáttur í því er að vekja áhuga nemenda á heilbrigðissviði á sérhæfingu á sviði lungnasjúkdóma. Lungnasamtökin vilja jafnframt leitast við að styrkja starfsemi Vísindasjóðs Lungnasamtakanna sem mest þannig að mögulegt verði að styrkja rannsóknir til að uppfylla þau markmið og leita að styrktaraðilum stórum sem smáum sem leggja vilja sjóðnum lið. Lungnasamtökin minna á heimasíðuna sína https://www.lungu.is en þar er gagnleg fræðsla um lungnasjúkdóma.

Guðrún fékk styrk

Þrír styrkir voru veittir að þessu sinni. Guðrún Nína Óskarsdóttir hlaut styrk til að meta árangur endurhæfingar á Reykjalundi eftir lungnakrabbameinsskurðaðgerð. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða árangur endurhæfingar í þessum sjúklingahópi. Verkefnið verður BS-verkefni Mögnu Guðbrandsdóttur, læknanema.

„Við munum skoða hvort það sé munur á lifun sjúklinga sem fara í endurhæfingu miðað við þeirra sem ekki fara í endurhæfingu en í nýlegri Cochrane analysu um málefnið var lýst eftir svari við þeirri spurningu. Við munum einnig skoða heildarárangur endurhæfingarinnar,“ segir Guðrún. Guðrún Nína er lungnalæknir á Reykjalundi og á Læknasetrinu. Á læknaárunum gerði hún verkefni sem snerist um lifun einstaklinga sem höfðu farið í skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins og kveikti það áhuga hennar og er til dæmis ástæða þess að hún starfar sem lungnalæknir í dag. Guðrún hefur alla sína starfsævi unnið við rannsóknir á lungnakrabbameini meðfram klínískri vinnu. Þakka þær Magna Vísindasjóði Lungnasamtakanna kærlega fyrir stuðninginn.

Karin var einnig styrkt

Karin Kristina Sandberg hlaut styrk til rannsóknar á stöðu einstaklinga sem nota sérhæfða öndunarvélarmeðferð að vistun á hjúkrunarheimili sé heft. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á stöðu þessa skjólstæðingahóps og bera hana saman við aðra einstaklinga sem sækja um vistun á hjúkrunarheimili í þeim tilgangi að leggja mat á hvort um jafnt aðgengi sé að ræða. Karin er hjúkrunarfræðingur og starfar sem teymisstjóri Heimaöndunarvélateymis á Landspítalanum.

Fatima fékk þriðja styrkinn

Fatima Mandia Labitigan hlaut styrk til að meta þekkingu, færni og viðhorf hjúkrunarfræðinga varðandi innöndunartæki og greina hindranir sem valda því að fræðsla um innöndunartæki meðal einstaklinga með langvinna lungnateppu og astma er ófullnægjandi. Rannsóknir sýna að einungis 31% sjúklinga nota innöndunarlyf rétt. Ófullnægjandi eða röng notkun innöndunarlyfja eykur líkur á alvarlegri versnun sjúkdómsins og mögulegum sjúkrahúsinnlögnum einstaklingsins. Öflug kennsla hjúkrunarfræðinga er því mjög mikilvæg og að einstaklingurinn fylgi fyrirmælum og haldi þannig sjúkdómnum í skefjun.

Fatima er fædd og uppalin á Filippseyjum en flutti til Íslands 2011 eftir að hún kynntist manninum sínum sem er íslenskur. Hún starfaði á Lungnadeild Landspítalans í 10 ár og þar tók hún eftir að margt mætti betur fara í sambandi við notkun innöndunarlyfja og fræðslu. Í dag er Fatima aðstoðardeildarstjóri á Landakorti, útskriftardeild aldraðra og samhliða því er hún á öðru ári í meistaranámi í hjúkrun langveikra við HÍ. „Draumurinn er að verða sérfræðingur í lungnahjúkrun,“ segir Fatima og þakkar Vísindasjóði Lungnasamtakanna kærlega fyrir sig.

 

Fréttin birtist fyrst í 19. árg 1. tbl. 2025 tímariti Astma- og ofnæmisfélags Íslands