Lind stofnar Facebook-síðu og bendir á símaráðgjöf

Við hjá Lind, félag fólks með ónæmisgalla/mótefnaskort erum að undirbúa alþjóða vitundarvakningar viku - WPIW - sem er 22. – 29. apríl næst komandi. Fyrirhuguð eru verkefni af ýmsu tagi, svo sem fræðsla og skemmtidagskrá. Enn er staðan sú hér á landi að margir hafa ekki fengið greiningu, eða fá hana ekki fyrr en seint á ævinni eftir langvarandi veikindi.

Sem betur fer eru heilbrigðisstéttir meðvitaðri um sjúkdóminn en áður var og eftirlit og þjónusta hefur tekið miklum breytingum til hins betra. Opnuð hefur verið heimasíða fyrir Göngudeild ónæmisfræðideildar, síðuna má finna undir www.landspitali.is og hér. Þar er að finna ýmislegt fræðsluefni og myndbönd sem nýst getur þeim sem eru til dæmis í heimameðferð. Á deildinni fer fram sérhæfð þjónusta og ráðgjöf fyrir einstaklinga með ónæmisgalla.

  • Símaráðgjöf hjúkrunarfræðinga fyrir einstaklinga með meðfædda ónæmisgalla er mán – fim frá 09:00-14:00 í síma 543 5840.Hvetjum við fólk eindregið til nýta sér þá þjónustu.

Stofnuð hefur verið Facebook-síða fyrir félagið og hvetjum við alla til að skrá sig inn á síðuna, Lind félag um ónæmisgalla/mótefnaskort, þar er einnig hægt að senda okkur fyrirspurnir sem svarað er við fyrsta tækifæri.

Dagskrá WPIW verður auglýst inn á heimasíðu félagsins www.lindisland.net og Facebook síðu félagsins. Gleðjumst yfir þeirri heilsu sem við höfum með þeim ráðum sem okkur bjóðast.

Staðfært út frá leiðbeiningum bandarísku og evrópsku samtakanna um meðfædda ónæmisgalla.

Ef grunur er um meðfæddan ónæmisgalla getur heimilislæknir sent sérfræðingi í ónæmislækningum
beiðni um frekari skoðun.


Fyrir hönd Lindar,
Guðlaug María Bjarnadóttir og Súsanna Antonsdóttir

 

Fréttin birtist fyrst í 19. árg 1. tbl. 2025 tímariti Astma- og ofnæmisfélags Íslands