Framleiðendur bera ábyrgð á merkingum matvælanna

Hefðbundin ráð við fæðuofnæmi ganga út á að forðast ofnæmisvakann, það er þau matvæli sem innihalda hann og hindra þannig ofnæmisviðbrögð.

Merkingar

Merkingar og önnur upplýsingagjöf um ofnæmisvalda í matvælum eru oftast einu upplýsingarnar sem einstaklingar með ofnæmi eða óþol hafa til þess að átta sig á hvaða matvæli eru örugg fyrir þá, og þá hvað þeir eiga að velja eða forðast. Það er því lykilatriði að tryggja að þeir fái ítarlegar upplýsingar um samsetningu matvæla. Eingöngu þannig geta neytendur tekið upplýstar ákvarðanir um val á matvælum sem eru örugg fyrir þá. Reglur um merkingu á ofnæmis- og óþolsvöldum eru í sérstakri merkingareglugerð, sem heitir fullu nafni Reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Þar er fjallað um öll þau atriði sem upplýsa þarf um varðandi innihaldsefni matvæla. Í viðauka við reglugerðina er listi yfir 14 algengustu ofnæmis- og óþolsvalda sem hafa verið skilgreindir.

Ofnæmisvakarnir sem í þeim eru finnast jafnframt í margvíslegum unnum matvælum sem innihalda þessi matvæli sem hráefni. Öll matvæli sem eru á þessum lista þurfa að vera merkt með skýrum hætti með því heiti sem fram kemur á listanum. Þetta má t.d. gera með feitletruðum texta. Það er einnig skylda að upplýsa um þessa ofnæmis og óþolsvalda í ópökkuðum matvælum (t.d. mat á veitingastöðum, sælgæti í lausasölu eða í bakarísvörum).

Listinn hér á eftir sýnir algengustu fæðuofnæmis- og óþolsvaldana sem eiga ávallt að vera merktir á skýran hátt og/eða upplýst um þá, jafnvel þó að þeir eða afurðir úr þeim séu í mjög litlu magni í matvælunum.

Listi yfir algengustu fæðuofnæmis- og óþolsvaldana:

  1. Kornvörur sem innihalda glúten: Hveiti, rúgur, bygg, hafrar, spelt, taumhveiti (kamut) eða blendingar þeirra og afurðir úr þeim.
  2. Krabbadýr og afurðir úr þeim.
  3. Egg og afurðir úr þeim.
  4. Fiskur og fiskafurðir.
  5. Jarðhnetur og afurðir úr þeim.
  6. Sojabaunir og afurðir úr þeim.
  7. Mjólk og mjólkurafurðir (þ.m.t. laktósi).
  8. Hnetur: Möndlur, heslihnetur, valhnetur, kasjúhnetur, pekanhnetur, parahnetur, pistasíuhnetur, goðahnetur eða queensland-hnetur (Macadamia hnetur) og afurðir úr þeim.
  9. Sellerí og afurðir úr því.
  10. Sinnep og afurðir úr því.
  11. Sesamfræ og afurðir úr þeim.
  12. Brennisteinsdíoxíð og súlfít
  13. Lúpína og afurðir úr henni.
  14. Lindýr og afurðir úr þeim.

Það eru nokkrar afurðir sem eru undanþegnar þessari merkingakröfu vegna þess að ofnæmisvakarnir hafa verið fjarlægðir við vinnslu þ.á.m. glúkósasíróp (úr hveiti) og fullhreinsuð sojaolía. Þessi efni þarf ekki að auðkenna með feitletrun við merkingu.

Hver ber ábyrgð á réttum upplýsingum um matvæli?

Matvælafyrirtæki, það er framleiðendur, verslanir og veitingastaðir, sem framleiða, selja og bera fram matvæli, bera ábyrgð á því að fylgja reglum við merkingar og aðra upplýsingagjöf um matvæli sem þau framleiða eða selja. Ef ranglega merktar matvörur, sem gætu varðað öryggi neytenda, eru í dreifingu er ábyrgðaraðila þeirra skylt að taka
þær af markaði og upplýsa bæði eftirlitsaðila og neytendur.

Matvæli án umbúða

Þegar matvælum er dreift án umbúða, svo sem í mötuneytum eða bakaríum, þarf sá sem selur vöruna eða afhendir hana til neytenda að veita upplýsingar um hvaða ofnæmis- eða óþolsvaldandi efni eru í vörunni. Það er afar mikilvægt að neytendur viti að þeir hafi rétt á þessum upplýsingum. Þetta á við um öll óforpökkuð matvæli og þau sem er pakkað á staðnum s.s. í fiskbúðum, veitingastöðum, bakaríum og sölubásum á mörkuðum.

Listi yfir innihaldsefni á að vera á pökkuðum matvælum. Á listanum eiga öll innihaldsefni matvæla (hráefni, aukefni og önnur efni) að koma fram í röð eftir magni. Ofnæmis- og óþolsvaldar í innihaldslista eiga að koma skýrt fram í upptalningunni með leturbreytingu, s.s. feitletrun eða á annan hátt sem sker sig úr. Ákveðnar matvörur þurfa ekki að hafa lista yfir innihaldsefni s.s. ferskir ávextir og ferskt grænmeti, ostar, smjör og rjómi sem engum innihaldsefnum hefur verið bætt í. En engu að síður á að upplýsa um ofnæmis- og óþolsvalda hvort sem matvara ber lista yfir innihaldsefni eða ekki. Í þeim tilfellum á að merkja ofnæmis- og óþolsvald með orðinu
„inniheldur:...nafn á efni“.


Samkvæmt reglugerðinni er ekki leyfilegt að tilgreina ofnæmis- og óþolsvalda á annan hátt en lýst er hér að ofan. Þannig eru varúðarmerkingar eða annars konar upplýsingar utan listans yfir innihaldsefni eru ekki leyfilegar. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir rugling hjá neytendum með mismunandi merkingar ofnæmis- og óþolsvalda í
matvælum.

Gæti innihaldið snefil af....

Að lokum varðandi merkinguna „Gæti innihaldið snefil af...“. Það er ávallt fyrir hendi ákveðin hætta á mengun þar sem unnið er með mismunandi vörur á sama svæði. Þannig geta leifar af ofnæmis- og óþolsvaldi borist yfir í önnur matvæli en engin merking er til staðar. Þetta er þó ekki skyldumerking heldur valkvæð merking, sem þýðir að sum
fyrirtæki nota hana en önnur ekki.

Ítarefni:

Reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda nr 1294/2014 sem innleiðir evrópugerð nr. EB 1169/2011
Reglugerð EB nr. 1169/2011

Grímur Ólafsson,
fagsviðsstjóri Matvælastofnunar (MAST)

 

Fréttin birtist fyrst í 19. árg 1. tbl. 2025 tímariti Astma- og ofnæmisfélags Íslands