Astma- og ofnæmisfélag Íslands hefur í nokkur ár boðið upp á heimsóknir í leik- og grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og víðar með það að markmiði að veita faglega fræðslu og leiðbeina starfsmönnum vegna fæðuofnæmis og fæðuóþols.
Heimsóknirnar hafa verið án endurgjalds og er það félaginu sönn ánægja að geta veitt slíka fræðslu en styrkir hafa hlotist til verkefnisins, til dæmis frá Reykjavíkurborg, ÖBÍ réttindasamtökum, Heilbrigðisráðuneytinu og nú síðast Lýðheilsusjóði. Kann félagið þeim bestu þakkir fyrir.
Í leik- og grunnskólum geta komið upp ýmsar aðstæður í tengslum við fæðuofnæmi og -óþol og því er nauðsynlegt að eiga gott samtal um hvað þarf að gera til að fyrirbyggja „slys“. Eitt af því er að tryggja að allir hafi þá kunnáttu sem til þarf, aðeins þannig má mæta þeim áskorunum sem upp geta komið.
Fræðslan frá AO veitir starfsfólki aukna kunnáttu og aukið öryggi sem nýtist þá bæði foreldrum og starfsfólki til að taka á málum sem upp koma. Börn verða jafnvel vitni að óþægilegri reynslu, sjá skólafélaga fá mikil ofnæmisviðbrögð og þá er mikilvægt að þau sjái og upplifi að tekið sé á málum af yfirvegun, öryggi og ábyrgð. Eftir fræðsluna hefur starfsfólk skólans þá þekkingu sem til þarf og getur rætt atvikið eftir á við börnin til að draga úr áhyggjum þeirra.
Tonie Sörensen er hjúkrunarfræðingur að mennt og með sérhæfingu í astma- og ofnæmissjúkdómum. Hún starfar á ofnæmisgöngudeild Barnaspítala Hringsins auk þess að sjá um skrifstofu AO á mánudögum. Tonie hefur séð um þessar heimsóknir frá upphafi enda er hún hafsjór af þekkingu og reynslu og þú kemur ekki að tómum kofanum hjá henni.
Tonie gefur þátttakendum tækifæri til að spyrja þeirra spurninga sem á þeim brenna, í léttu andrúmslofti og svarar af yfirvegun og ábyrgð. Farið er vel yfir notkun á Epipen eða adrenalín penna því borið hefur á því að sumir hræðast að nota pennann sem er fólki hrein lífsbjörg í tilvikum kröftugra ofnæmisviðbragða. Það er því afar nauðsynlegt að fólk kunni og þori að nota pennann þegar á þarf að halda. Tonie fer yfir þessa hluti og fá allir að æfa sig við að nota pennann með því að stinga í appelsínur til að yfirstíga þann ótta sem oft er til staðar. Til að árétta, rétt notkun og tímasetning hvenær á að nota Epipen er grundvallaratriði sem starfsmenn í skólum og leikskólum þurfa að kunna og vera óhræddir við. Einnig deilir Tonie með þátttakendum, viðbragðsáætlun AO sem finna má inni á heimasíðunni okkar - www.ao.is.
Viðbragðsáætlunin er unnin fyrir skóla og leikskóla, góðar leiðbeiningar sem fjalla um að hvaða þáttum þarf að huga og hver ber ábyrgð á hverju. Upplýsingarefnið er hugsað sem gátlisti en aðstaða og þarfir eru mismunandi og því gott að fara yfir þær á hverjum stað fyrir sig og með fólkinu sem sinnir börnunum. Að fræðslu lokinni fá stjórnendur skólans fræðsluefni í hendur og geta í framhaldinu alltaf haft samband um viðbótar upplýsingar og aðstoð.
Gaman er að geta þess að ásóknin í þessar heimsóknir hefur tvöfaldast og erum við hjá félaginu alsæl með það og sýnir að aukinnar þekkingar er óskað af hálfu skólanna. Vanalega hafa heimsóknir verið á bilinu ein til tvær á hverju hausti en síðast liðið haust var farið í fimm heimsóknir (fjórar í Reykjavík og eina á Selfoss). Líklegasta skýringin á þessari aukningu er sú að þessi fræðsla hefur spurst út meðal starfsfólks leikskóla og skóla og því hafa fleiri sóst eftir heimsóknunum frá okkur en áður. Höldum áfram að láta boðin berast á milli til að efla fræðsluna.
Ef þinn skóli eða leikskóli hefur áhuga á heimsókn frá Tonie þá endilega sendið tölvupóst á ao@ao.is og Tonie verður í sambandi við þig.
Fréttin birtist fyrst í 19. árg 1. tbl. 2025 tímariti Astma- og ofnæmisfélags Íslands