Tilkynningar
Öndum léttarJónína Leósdóttir, rithöfundur og leikskáld:Krafan um “aðgengi fyrir alla” vísar yfirleitt til áþreifanlegra hluta. Hún er ákall um víðari dyrakarma, hjólastólarampa, lyftur og annað sem gerir hreyfihömluðum auðveldara að komast leiðar sinnar í þjóðfélaginu. En sumar hindranir í lífinu eru ósýnilegar. Það þekkjum við sem erum með astma og ofnæmi. Margir astmasjúklingar eiga í daglegri baráttu við ósýnilega hluti – og sú barátta mætir oft afar takmörkuðum skilningi hjá þeim sem ekki þekkja astma og ofnæmi af eigin raun. Við getum til dæmis þurft að varast sterka lykt en þegar reynt er að útskýra þetta fyrir fólki, sem angar af dýrindis ilmvatni eða rakspíra, heldur það stundum að okkur finnist það illa lyktandi. En andþyngsli eru enginn dómur um það hvort lykt af ilmvatni, ilmkremi, reykelsi eða ilmkerti sé góð eða vond. Einstaklingar með ofnæmi geta líka þurft að forðast dýrahár, ryk, heymaura, rykmaura og annað sem erfitt er að greina berum augum. Manneskju með katta- eða hundaofnæmi nægir því ekki endilega að forðast hunda og ketti. Hún getur orðið fárveik af því einu að setjast inn í bíl hundaeiganda eða sitja við hlið kattareiganda í kvikmyndahúsi. Þar til 1. júní síðastliðinn áttu margir astmasjúklingar einnig erfitt með að fara á veitingastaði, kaffihús, bari og skemmtistaði. Á flestum þessara staða voru reykingar leyfðar – en sígarettureykur er einmitt eitt af þessu ósýnilega sem fólk með viðkvæm lungu þarf að forðast. Og það var ekki nóg með að við þyrftum að anda að okkur reyknum inni á þessum stöðum, heldur fylgdi sígarettulyktin okkur alla leið heim. Fólk sem þolir illa reykingalykt þurfti því að viðra fötin sín og jafnvel þvo á sér hárið eftir innlit á kaffihús. Það er að segja ef því fannst yfir höfuð taka því að fara inn á reykmettaða staði. En núna er sumsé runnin upp ný og betri tíð. Einum af ósýnilegu þröskuldunum, sem gert hafa astmasjúklingum erfitt fyrir, hefur verið rutt úr vegi. Fólk með astma og aðra lungnasjúkdóma getur nú andað léttar yfir góðri máltíð og hressandi kaffibolla. Og auðvitað samgleðjumst við líka starfsfólkinu sem ekki neyðist lengur til að stunda áhættusamar, óbeinar reykingar í vinnutímanum.
Höfundur er félagi í Astma- og ofnæmisfélaginu |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO