Tilkynningar
Er hægt að forðast rykmaura?Margt hefur verið gert til að reyna að draga úr magni rykmaura í umhverfinu. Þar sem rykmaurar eru viðkvæmir fyrir breytingum á raka er æskilegt að halda rakastiginu fyrir neðan 45%. Það hægir á tímgun mauranna. Ef rakastig er hátt í húsum þarf að athuga hvað valdi því og gera ráðstafanir til úrbóta. Lífsskilyrði fyrir rykmaura eru best í rúmdýnum og koddum. Kæling niður í -18°C í tvo sólahringa eða upphitun í 45° í tvo tíma drepur maurana. Þannig má drepa maurana í sænginni og koddanum með kælingu eða upphitun. Önnur aðferð til að halda maurunum í einskonar fangelsi er að vefja dýnuna og koddann í plast og sjá hvort einkennin minnka við það. Beri þetta árangur þá eru til sérstök ver (impermeable covers) sem setja má á dýnuna, sængina og koddann. Þau eru þannig gerð, að rykmaurar og aðrir ofnæmisvaldar komast ekki í gegnum þau. Annað hvort er um að ræða þétt ofinn vef með þráðbili minna en 1/100 úr millimetra og dregur það 15-65 falt úr rykmaurafjöldanum (7) eða polyuretane-himnu innan á verinu. Þvottur við 60°C. drepur maurana. Vikulegur þvottur dregur því verulega úr fjölda rykmaura í rúmfatnaði (8). Ryksugur og loftsíur gera takmarkað gagn. Ryksugur þurfa sérstakan filter (HEPA filter) og tvöfaldan ryksugupoka til að halda í sér fíngerðu ryki. Ryksugun er því vafasöm aðferð til að halda rykmaurum í skefjum. Sama er að segja um kemískar aðferðir þar sem lúsameðul á borð við benzyl bensoatis og tanninsýru hafa verið notuð til að drepa maura. Hvorugt hefur komið að gagni (9,10). Koddar og sængur úr gerviefnum safna hraðar í sig ofnæmisvökum frá rykmaurum en koddar og sængur úr dún og fiðri. Sængur úr gerviefnum má þvo, en eru að öðru leyti síst heppilegri en dúnsægur fyrir fólk með rykmauraofnæmi. Lengi var því trúað að rykmaurar tímguðust betur í koddum og sængum úr fiðri og dún en úr öðrum efnum. Því voru stundum auglýstar ofnæmisfríar sængur úr gerviefnum. Rannsóknir seinni ára benda til þess að þessu sé alveg öfugt farið og að rykmaurar tímgist verr í sængum og koddum úr dún og fiðri. Í einni rannsókn var fylgst með því á þriggja mánaða fresti í 12 mánuði hvernig rykmaura fjölguðu sér í nýjum koddum úr gerviefni og koddum úr fiðri. Í öllum mælingunum var 4-5 sinnum meira magn af rykmaurum í koddunum úr gerviefni en fiðurkoddunum (11). Önnur rannsókn miðaði að því að kanna orsakir astma meðal unglinga í Sheffield í Englandi. Niðurstaða hennar var sú að þeir unglingar sem svæfu við kodda úr gerviefnum væru í 2,78 sinnum meiri hættu að fá urg fyrir brjósti en þeir unglingar sem svæfu við fiðurkodda (12) Varast beri að draga allt of miklar ályktanir af einstökum rannsóknum en fleiri rannsóknir hníga í sömu átt og þær virðast alveg kollvarpa þeirri trú að gerviefni séu betri í sængurfatnað þeirra sem eru með rykmauraofnæmi en dúnsængur og dúnkoddar. |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO