Tilkynningar
Um rykmauranaRykmaurarnir eru aðeins um 0,3 mm á lengd og ekki sýnilegir með berum augum. Þeir teljast til áttfætlumaura og eru einna líkastir skjaldböku í laginu þegar þeir eru skoðaðir með augum viðvaningsins gegnum smásjá. Á mælikvarða okkar mannanna er æviskeið þeirra stutt; aðeins 100 - 150 dagar. Hver kvenmaur getur orpið allt að 80 eggjum um ævina og þeir fjölga sér ört ef aðstæður eru hagstæðar (5). Orðið dermatophagoides þýðir sá sem étur húð. Það segir sína sögu. Rykmaurar lifa gjarnan á húðflyksum af mönnum og skepnum og þeir þurfa hita og raka til að njóta sín vel. Best þrífast þeir við hitastig kringum 25° C og raka á bilinu 50-80% (5). Hvergi eru því skilyrði fyrir þá ákjósanlegri en í hlýu rúmi þar sem nóg er að bíta og brenna. Þó geta þeir einnig þrifist í teppum og tauklæddum húsgögnum, einkum ef raki er í húsinu. Rakinn er þeim svo mikilvægur að þeir tímgast ekki þegar rakastigið fer niður fyrir ákveðið mark. Í rykmaurum eru a. m. k. 30 eggjahvítusambönd sem valda mótefnasvörun og ofnæmi (6). Þau kallast ofnæmisvakar. Þau dreifast út í rykið þegar rykmaurinn drepst og leysast sundur. Mest er af ofnæmisvökum í driti mauranna. Við umgang og þegar búið er um rúm þyrlast rykið upp og kemur í snertingu við slímhúðina í augum og öndunarfærum. Líklega verður þó snertingin mest við að bylta sér í rúminu. |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO