Tilkynningar
Endurskoðuð handbók fyrir grunnskólamötuneyti komin út
Faghópur á vegum embættis landlæknis vann að endurskoðun handbókarinnar og var einnig sóst eftir áliti sérfræðinga í völdum málaflokkum. Einnig var litið til Norrænu næringarráðlegginganna sem og ráðlegginga til skólamötuneyta á Norðurlöndunum. Handbókin er fyrst og fremst ætluð þeim sem útbúa mat fyrir börn í grunnskóla eða hafa áhrif á hvaða matur er þar í boði en þó er mikilvægt fyrir flest allt starfsfólk skólans að kynna sér efni hennar. Tilgangurinn með útgáfunni er að auðvelda skólum að gefa börnum hollan, góðan og öruggan mat við þeirra hæfi þannig að þau vaxi og dafni sem best. Nú til dags verja flest yngri börn meirihluta dagsins í grunnskólanum og á frístundaheimili eftir skóla en eldri nemendur verja einnig dágóðum tíma í skólanum. Í grunnskólum gefst því mjög gott tækifæri til að kenna þeim að njóta holls matar. Hluti af félagslegum þroska mótast við matarborðið þegar við borðum saman og því er mikilvægt að fullorðnir borði með börnunum. Í handbókinni er sérstaklega hugað að fjölbreyttu fæðuvali, fiskmáltíðum, grænmetisréttum, neyslu ávaxta og grænmetis, heilkornavara, auk vatnsdrykkju. Einnig er lögð áhersla á að nota D-vítamínbætta mjólk og jurtamjólk fyrir börn sem ekki drekka mjólk. Mikilvægt er að grunnskólar móti stefnu á sviði næringar og að starfsfólk hafi yfirsýn yfir næringu barna meðan á dvöl þeirra í grunnskólanum stendur. Nauðsynlegt er að stjórnendur skólans og starfsfólk eldhúss fundi reglulega eftir þörfum til að fara yfir næringarstefnu skólans sem og starfsemi og skipulag eldhúss. Það er von embættisins að handbókin komi að góðu gagni við að stuðla að fjölbreyttu og hollu mataræði skólabarna við þeirra hæfi. Upplýsingar um Heilsueflandi grunnskóla má finna hér. Nánari upplýsingar um handbókina veita verkefnisstjórar næringar: Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Jóhanna Eyrún Torfadótir, |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO