Samkvæmt upplýsingum úr áðurnefndum bæklingi þá fá 0,2% barna hnetuofnæmi. Í Bandaríkjunum er talið að 0,6% barna séu með ofnæmi fyrir jarðhnetum. Jarðhnetur (peanuts) er sú fæðutegund sem er þekktust fyrir að valda alvarlegu ofnæmi sem getur endað í ofnæmislosti ef viðkomandi borðar jarðhnetur.
Dæmisaga úr eigin lífi
Fyrir tæpum 8 árum eignuðumst við hjónin okkar þriðja barn sem síðar greindist með bráðaofnæmi fyrir jarðhnetum. Það hefur verið mikið lærdómsferli að skilja hversu alvarlegt þetta ofnæmi er og höfum við gert mistök sem og umönnuaraðilar í skólakerfinu. Þess vegna langar okkur að deila eigin reynslu.
Til að útskýra betur alvarleika ofnæmisins þá höfum við einu sinni lent í því að pabbinn borðaði samloku með hnetusmjöri í vinnunni og hjólar svo heim nokkrum tímum síðar. Þegar hann kom heim þá kyssti hann dóttur okkur með ofnæmið og nokkrum mínútum síðar var hún komin með bólgnar varir, tungu og kok og brunuðum við með hana á bráðamótttökuna til að hún fengið viðeigandi meðferð. Þá skal tekið fram að foreldrarnir borða ekki lengur jarðhnetur (nema á ferðalögum sem taka nokkra daga, ef barnið er ekki með í för) til að koma í veg fyrir að svona atvik endurtaki sig.
Það er því ljóst að það má ekki taka neina sénsa og einfaldur hlutur eins og að fá að fara í heimsókn til bekkjarfélaga getur reynst erfitt og þarf að fara fram gott samtal við foreldra áður en slík heimsókn getur átt sér stað.
Hér koma því nokkur ráð til gestgjafa, byggð á eigin reynslu, til að koma í veg fyrir hættuástand.
Hvað þarf að passa þegar barn með bráðahnetuofnæmi kemur í heimsókn?
-
Fjarlægja hnetur og öll matvæli sem innihalda hnetur. Hér eru nokkur dæmi um matvæli sem þarf að hafa í lokuðum umbúðum inní skáp meðan á heimsókn stendur: salthnetur, Snickers, Corny-stangir, M&M kúlur í gulu pokunum og hnetusmjör. Einstaklingar með bráðaofnæmi fyrir hnetum geta verið með misjöfn viðbrögð en samkvæmt okkar reynslu þá getur dóttir okkar átt erfitt með andadrátt ef hnetur eru nálægt henni og fær hún svokallaða astmaöndun þar sem það hvín í lungunum. Einnig fær hún útbrot ef hún er nálægt hnetum eða snertir þær. Það er því mikilvægt að þrífa vel borð og hendur þar sem hnetur hafa verið áður.
-
Forðast svokallaða krossmengun en það er að nota áhöld sem hafa komist í snertingu við hnetur. Ekki má heldur snerta eða kyssa einstakling með bráðaofnæmi ef þú varst að borða hnetur né deila glasi eða flösku með þeim sem er með ofnæmið.
Má nota matvæli sem eru merkt að gæti innihaldið snefil af hnetum?
Í tilviki dóttur okkar höfum við ekki lent í vandræðum með vörur þar sem hnetur eru hvergi nefndar í innihaldslýsingu en merkt er á umbúðirnar að varan geti innihaldið snefil af hnetum. Best er ef gestgjafinn er í vafa að hringja í foreldra barnsins eða senda mynd með innihaldslýsingunni til að fá staðfestingu á að varan sé örugglega í lagi.
Best er að sleppa að gefa bakarísvörur, bæði af því að engin innihaldslýsing er til staðar þegar heim er komið og líka vegna hættu á krossmengun.
Hvað á að gera ef einstaklingur með bráðaofnæmi fær hnetur á varir eða í munninn?
Alvarleg einkenni þess að fá hnetur á varir eða í meltingarveginn eru hvæs í öndun, uppköst, fölvi, bólga á vörum og tungu, erfið öndun og bólga í koki. Mikilvægt er að nota adrenalínpennan sem fyrst. Best er að láta viðkomandi setjast eða liggja og nota þarf pennan á utanvert lærið. Ef fleiri en einn eru nálægt er gott að fá aðstoð við að halda fætinum kyrrum en halda þarf pennanum við lærið í 10 sekúndur eftir að honum er stungið í lærið. Hringið svo strax í 112 svo hægt sé að koma sjúklingnum undir læknishendur en áhrif adrenalínpennans vara aðeins í um það bil 20 mínútur.
Samantekt
Tilhugsunin um að barnið manns geti verið í hættu daglega reynir á alla foreldra. Ef allir sem umgangast einstakling með bráðahnetuofnæmi gera sér grein fyrir alvarleikanum og taka enga áhættu þá eru litlar líkur á að slys verði. Ef það verður slys þá er mikilvægt að allir viti hvar hægt er að finna adrenalínpennan og nota hann strax sem og að hringja á sjúkrabíl.
Kærar þakkir fyrir að lesa þennan pistil og láta þig málið varða.
____
Jóhanna Eyrún Torfadóttir, varamaður í stjórn Astma- og ofnæmisfélag Íslands
Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.