Tilkynningar

DÁSAMLEGUR MATUR SEM ALLIR GETA NOTIÐ Hin breska Alice Sherwood er...
Opnunartími skrifstofu
Gerast félagi
ao vidbragsaaetlun hnappur

Skráning á póstlista

Minningarkort
Tímarit
Fræðslumyndbönd
Medic Alert
SÍBS

 

 

 ht logo big neg1

Skýrsla stjórnar Astma- og Ofnæmisfélags Íslands 2016

Starfsemi AO var í heildina litið svipuð og árið 2015, þó var aðeins minna um stjórnarfundi en gott samband var á milli stjórnarmanna og hlutir unnir með rafrænum hætti og í minni hópum. Stjórnarmenn tóku virkan þátt í starfi SÍBS og ÖBÍ sem er mikilvægt fyrir starfsemi félagsins og styrkir starf þess og tengslanet. Selma Árnadóttir situr í nefnd með fulltrúum annarra sjúklingasamtaka um byggingu nýs Landspítala. Jóhanna og Björn tóku þátt í vinnuhópi um gæludýr í strætó. Útgáfa blaðsins okkar frestaðist fram yfir áramót vegna skorts á auglýsingum en mikið og gott efni var unnið og skilar sér í flottu blaði á árinu 2017. Sólveig Hildur Björnsdóttir hélt áfram með blaðið en það hafði skila góðum árangri 2015 og því ákveðið að halda því áfram.

Fræðslumál.

Fræðslumálin voru í föstum farvegi á árinu, fengum fæðuofnæmis erindi hjá Gunnari Jónassyni í apríl í Reykjavík og var fullt út úr dyrum. Gunnar hélt sambærilegt erindi á Akureyri og var fín mæting. Samhliða því var erindi með Mikaelu Odemyr forseta EFA bæði á Akureyri og í Reykjavík þar sem hún fjallaði um hlið foreldris barns með mjög alvarlegt fæðuofnæmi. Erfitt er að fá erindi frá fagaðilum en vonandi vænkast hagur okkar á árinu 2017. Anna Rósa Halldórsdóttir aðstoðaði við skipulag fundarins á Akureyri og var það frábært fyrir félagið okkar.

Foreldrahópur
Foreldarhópur hittist tvívegis á árinu og voru það góðir fundir, áhugavert að heyra hvernig umhverfið er þarna úti fyrir þennan hóp, sem fer stækkandi. Fyrirhugað er að halda slíka fundi með reglubundnari hætti en gott væri ef fleiri fengjust til að leiða það starf og að við fengjum betri mætingu því mikið er spurt og spjallað á spjallrásum á netinu þannig að þörfin er fyrir hendi.

Jólaball

Annað jólaball AO var haldið á árinu og kom það vel út eins og árin tvö á undan. Mikilvægt að halda þessari hefð og styðja þannig við þá sem ekki komast á hefðbundin jólaböll. Mætingin mætti vera betri en við þurfum að fikra okkur áfram með góða dagsetningu og halda áfram að kynna þetta vel. Þórunn María Bjarkadóttir sá um að halda utan um skipulagið.

 

SÍBS

Góður hópur frá AO sat ársfund SÍBS þó svo að við höfum ekki náð að manna öll okkar sæti. Sólveig Hildur Björnsdóttir var kjörin varaformaður, Selma Árnadóttir meðstjórnandi og Fríða Rún Þórðardóttir varamaður. Björn Ólafur Hallgrímsson leiðir laganefndina og Dagný Erna Lárusdóttir situr í uppstillingarnefnd. Í stjórn SIBS er fundað mánaðarlega. Stærsta málið framundan er vinna við lög SÍBS og þar er Björn Ólafur í forsvari. Aðkoma AO er engin að svo komnu máli en mögulega þegar drögin koma frá laganefndinni.

ÖBÍ
Fríða Rún formaður AO hlaut gott kjör inn í stjórn ÖBÍ á aðalfundi ÖBÍ á haustmánuðum einnig situr hún í málefnahópi um heilbrigðismál sem fundar minnst mánaðarlega eins og stjórn ÖBÍ. Viðburðir á vegum þessa tveggja sækir FRÞ eins og framast er kostur. Sólveig sat formannafund ÖBÍ ásamt FRÞ og er það mikilvægt upp á að fylgjast með málefnum líðandi stundar sem og að styrkja tengslin. Ætlast er til að tiltekin mæting sé á ársfundi og formannafundi ÖBÍ til að aðildarfélag geti hlotið styrk og er það sjálfsagt að svo sé.

FRÞ sendi inn skýrslu til ÖBÍ þar sem fram koma umsvif AO er snýr að fræðslumálum og var gaman að geta sagt frá því hvað ávannst á árinu 2016.

 

Nordic Label

Fundir í vinnuhópi um Nordic Label héldu áfram og miðaði vel fyrir utan að finnar drógu sig út. Áframhaldið er farvegi og snýr að megninu til að því að þau lönd sem nú þegar eru með ofnæmis-merkingar (Danmörk, Svíþjóð og Noregur) finni flöt á sínum málum og sammælist um þætti er snúa að gjaldtöku fyrir mat á vörum og vöruflokkum og er snýr að innkomu prósentu tölu sem og hvernig eigi að standa að því að finna hvernig meta skuli vörur sem metnar er á mjög ólíkan hátt meðal landanna þriggja. Ísland stendur aðeins út fyrir í augnablikinu en mun fá skýrslu um framgang mála og næstu skref þegar þau eru ljós.

Ofnæmisnámskeið:

Fjöldinn allur af námskeiðum var haldinn á árinu og fjöldi þátttakenda nú kominn yfir 200 manns. Stórt skref var að halda námskeið fyrir Reykjavíkurborg fyrir 2017. Hugmynd sem gaman væri ef kæmist í framkvæmd er að halda námskeið fyrir veitingageirann en það þarfnst töluverðrar vinnu af okkar hálfu en gæti orðið haustið 2017. Námskeiðin eru að fara nánast á sléttu, aðeins mismunandi, milli hópa en Kræsingar eru að seljast á námskeiðunum sem skiptir miklu máli. Kræsingar eru einnig notaðar við kennslu í MK sem er gott fyrir félagið og skjólstæðingar okkar.

Gæludýr í Strætó.

Lítið fréttist af því máli þegar leið frá umfjölluninni sumarið 2016 en við bíðum og vonum að niðurstaðan verði í hag okkar skjólstæðinga. Vinnuhópur AO (Björn, Jóhanna, Fríða Rún) settu saman grein sem fer í birtingu í blaðinu og á AO síðuna og á Heilsutorg. Sú samantekt mun jafnframt nýtast vel til upplýsingar síðar.

 

Fundur með félagi Ónæmis- og ofnæmislækna

Í vinnslu er að fá fund með félagi ónæmis- og ofnæmislækna. Fulltrúar úr stjórn AO þurfa að ræða málefni eins og skoðun þeirra á því hvort að setja á sem skilyrði að ofnæmislæknir kvitti upp á vottorð vegna ofnæmisfæðis í leik- og grunnskóla eða hvort að þeir telji að heimilislæknar eða heilsugæslulæknar geti skrifað upp á slíkt. Það er eitthvað sem brennur á mörgum starfsmönnum leik- og grunnskóla. Annað málefni er sameiginleg fræðsla og fyrirlestrar og hvernig við getum stutt við hvert annað. Nokkrir læknar hafa verið ötulir í að rita með okkur bæklinga um hin ýmsu málefni og er það þakkar vert.

Bæklingar.

Komust ekki nægjanlega vel á dagskrá á árinu. Þurfum að finna aðila til að aðstoða okkur við dreifingu á bæklingum en uppfærsla á Frjóbæklingnum og Fæðuofnæmisbæklingnum þarf að eiga sér stað og nýtt upplag prentað og komið í dreifingu. Bæklingur um eksem er einnig á döfinni.

Leiðbeiningar til leikskóla

Vinna við leiðbeiningar til leik- og grunnskóla varðandi það hvernig taka á á móti barni með fæðuofnæmi og foreldrum þess og hvernig setja skal upp aðgerðaráætlun er snýr að meðferð við ofnæmiskasti ofl er nánast lokið. Verkefni er unnið í samráði við Reykjavíkurborg en FRÞ og SÁ hafa komið að þessu máli. Meiningin er að koma þessu á heimasíðu AO og einnig í góða kynningu út í samfélagið svo þetta nýtist sem flestum.

Hnetusmjörsvél í Hagkaup.

Hnetusmjörsvélarnar eru enn í Hagkaup og virðist sem við höfum engan rétt til að fá þær fjarlægðar. Það hefur verið rætt við Heilbrigðiseftilit Reykjavíkur. Ekkert sem við eða MAST getum gert. Við þurfum hins vegar að vera á tánum varðandi það ef að ofnæmistilfelli kemur upp í tengslum við vélarnar.

 

Merkingar matvæla

MAST ætlaði að hafa okkur með í ráðum varðandi þetta en lítið hefur orðið úr því nema að FRÞ tók langt símtal við þann aðila hjá MAST sem hefur með málið að gera nú. Lítið sem kom út úr því en staðan er sú núna að MAST er í átaki með að tékka á sannleiksgildi merkinga á matsölustöðum gagnvart upplýsingagjöf um ofæmisvalda. Geta droppað við hvenær sem er og gert úttekt. Ekki er víst hvort að þetta er nóg og þá samkvæmt reglum evrópusambandsins. Við upplifum óöryggi okkar skjólstæðinga gagnvart þessum málaflokki og sér í lagi gagnvart íslenskum vörum sem þykja illa merktar.

EFA

AO gekk í EFA í júní og sat FRÞ ársfund EFA í London. Mikill hlýhugur gagnvart umsókn okkar inn í samtökin og vonandi verður þetta farsælt og okkur til framdráttar og aðstoðar.


Dekkjakurl.

Veruleg vakning varð vorið 2016 sem hefur skilað því að það er komin upp áætlun um hvernig skipt verður um efni á gerfigrasvöllum í Reykjavík og nágrannasveitafélögunum. Vonandi er það efni sem ákveðið hefur verið að nota það besta sem völ er á. Þurfum að fylgja þessu máli eftir og kynna okkur hvernig staðan er núna.

Listi yfir sérfræðinga

Við þurfum að koma okkur upp lista yfir sérfræðinga sem við getum bent á þegar hringt er í okkur og við beðin um að gefa álit á málefnum eins og loftmengun, frjókornum, svifryk ofl. Og hvort að fleiri eða færri eru að upplifa einkenni og slíkt á tilteknum árstíðum og tímabilum. Ekki á færi stjórnarmanna að vita þetta nægjanlega vel. Við þurfum að hafa sérfræðinga okkur við hlið. Spurning hvort að við getum fengið Tonie til að vinna þetta og hafa klárt haust 2017.

Fjármál.

Stjórnin hefur lagt sig fram um að sækja um þá styrki sem mögulegt er og hefur gengið ágætlega, þó svo að neitanir séu töluverðar. Þessir styrkir eru okkur mjög mikilvægir til að hægt sé að halda úti starfsemi félagsins þar sem önnur innkoma en styrkir eru nánast engir nema þá félagsgjöldin sem ekki eru há. Einnig þarf að fara vel með það sem til er.

Styrkur var veittur úr styrktarsjóðnum 2016 en verkefnið sem var styrkt snýr að þróun á aðferðum við astmameðferð en verkefni er unnið af fagfólki á Reykjalundi. AO kom að því með framlagi á móti Styrktarsjóðsstyrknum til að upphæðin væri okkur til sóma. Málefni styrktarsjóðsins eru ekki einföld þar sem reglur hans eru mjög stífar og gefa lítið svirúm til verulegra styrkfjárhæða.

 

Starfsmannamál.

Tonie vinnur enn sömu daga og er í sömu prósentu og áður. Mánudaga frá kl. 9-15. Hún hefur nóg að gera og stendur sig alltaf vel. Laun hennar voru endurskoðuð sumarið 2016 í takt við hækkun á kjarasamningi hjúkrunarfræðinga og þarf að gæta þess að það sé gert á hverju ári í takt við það sem tíðkast í hennar fagi. Ekki stendur til að auka við vinnuprósentu hennar eða að bæta við starfsmanni.

 

Starfið framundan á árinu 2017 mun verða í föstum skorðum. Tiltekin endurnýjun verður í stjórninni en svipuð verkefni bíða nýrrar stjórnar og verið hefur og vonandi tekst að ljúka verkefnum sem hafa verið í vinnslu á árinu 2016.

04.06.17

Fríða Rún Þórðardóttir

Póstlisti AO

Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO