Tilkynningar
Hvað er frjókornaofnæmi?Frjókornaofnæmi er eitt algengasta ofnæmið sem kemur fram í nefi og augum. Ástæðan er ofnæmi fyrir grasi, birki eða súrum þ.e. frjókornum frá gróðri. Einkennin koma yfirleitt fram á sama tíma á hverju ári og sumum reynist erfitt að greina milli svokallaðs sumarkvefs og frjóofnæmis. Margir þjást af ítrekuðu kvefi á hverju sumri áður en þeir átta sig á því að um frjókornaofnæmi er að ræða. Reynið því að átta ykkur á því hvort hugsanleg tengsl geti verið milli einkenna og gróðurs í kringum ykkur. Eitt helsta einkenni frjókornaofnæmis og það margir finna fyrst fyrir, er kláði í augum. Aðeins örfá frjókorn í loftinu geta framkallað augnkláða. Augun verða rauðsprengd og það rennur úr þeim. Nauðsynlegt er að hafa í huga að frjókornaofnæmi getur oft valdið astmaeinkennum. Hvaða frjókorn valda ofnæmi? Helsta tímabil frjókornaofnæmis er sumarið, þ.e. júní, júlí og ágúst. Frjókorn frá súrum eru heldur seinna á ferðinni en frjókorna frá grasi, þ.e. frá júlí fram í september. Magn frjókorna í andrúmsloftinu fer mikið eftir veðri. Þegar rignir er magn frjókorna í lofti lítið, því laus frjókorn setjast á jörðina og blautar plöntur gefa ekki frá sér ný frjókorn. Á hlýjum, þurrum dögum eykst frjókornamagnið, einkum ef vindur blæs. Veðurstofa Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands standa í sameiningu að mælingu frjókorna í andrúmslofti. Smellið hér til að skoða niðurstöður mælinganna. Hafa ber í huga að fólk með frjókornaofnæmi getur myndað ofnæmi fyrir vissum fæðutegundum. Upplýsingar um samband fæðu og ofnæmis finnur þú á síðum um fæðuofnæmi og fæðuóþol. |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO