Tilkynningar
Á flótta í fríinuJónína Leósdóttir, rithöfundur og leikskáld:Það er ekkert grín fyrir manneskju eins og mig að fara í sumarfrí. Ég er nefnilega með ofnæmi fyrir öllu mögulegu sem erfitt er að varast þegar maður hættir sér út fyrir ramma hvunndagslífsins. Þess vegna hef ég oft þurft að verja sumarleyfinu á flótta undan alls kyns ofnæmisvöldum, jafnt sýnilegum sem ósýnilegum. Vesenið byrjar reyndar áður en ég legg af stað. Kona með ofnæmi fyrir hunda- og kattahárum getur ekki pantað gistingu á litlum, vinalegum bóndabæjum eða gistiheimilum þar sem eigendurnir – og dýrin þeirra – búa á staðnum. Og svarið er NEI. Það er nægir ekki að gæludýrin séu fjarlægð á meðan ég er á svæðinu og að eigendurnir sverji að dýrin komi hvort sem er aldrei inn í herbergi gestanna. Og NEI, ég get heldur ekki reddað málunum með því að taka eina pillu. Ég fæ samt ofnæmiskast! En ég hef svo sem líka lent í vandræðum á stórum, fínum hótelum þar sem engin dýr eiga lögheimili og ég hélt mig alveg örugga. Þá hefur kannski einhver af fyrri gestum staðarins haft hundinn sinn með sér inn á hótelið. Eða þá að gólfteppi og gluggatjöld hafa safnað í sig miklu ryki sem ég hef líka ofnæmi fyrir. Ég hef a.m.k. þurft að tékka út af flottum hótelum eftir innan við klukkutíma dvöl, þá orðin fárveik. Einu sinni var m.a.s. komin nótt og ekki um annan gististað að ræða ... svo ég varð að sofa í bílaleigubílnum á stæðinu fyrir framan hótelið. Það hefur ekki alltaf gengið vel að útskýra fyrir gestamóttökustjórum hvers vegna ég sé að yfirgefa staðinn eftir hálftíma viðdvöl og vilji helst ekki þurfa að greiða fyrir herbergið. Og aldurhnigin hjón í Svartaskógi litu mig hornauga í hálfan mánuð eftir að ég henti þremur guðdómlegum blómvöndum í öskutunnuna um leið og ég kom inn í yndislega íbúð sem þau leigðu út. Þau höfðu fyllt íbúðina af liljum til að bjóða mig velkomna – en ég næ því miður ekki andanum nálægt ilmsterkum blómum með stórum fræflum. Annars lendi ég ekki síður í vandræðum á veitingastöðum, kaffihúsum og krám í sumarfríum á erlendri grund. Ég hef óþolandi oft þurft að stökkva frá hálfkláruðum máltíðum og kaffibollum og hvítvínsglösum sem ég hef varla verið byrjuð að dreypa á. Og hvers vegna? Jú, í útlöndum er gjarnan leyfilegt að hafa Snata meðferðis þegar farið er út að borða. Þar að auki fá hundar og kettir veitingafólksins oft að rölta á milli gestanna ... öllum til ánægju, nema mér. Í sumum erlendum stórborgum get ég ekki einu sinni tekið leigubíl af því að þar þykir sjálfsögð öryggisráðstöfun fyrir leigubílstjóra að aka um með vígalegan hund í framsætinu. Grrrrrrrrrrrrr ... |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO