Tilkynningar
Orsakir barnaexemsEkki er vitað hvers vegna sum börn fá barnaexem en önnur ekki. En við vitum ýmislegt um hvað espar upp exem og kláða í húðinni. Árstíðir virðast skipta miklu máli fyrir barnaexem. Einkenni eru yfirleitt verst seint á haustin, á veturna og fram á vorið en hverfa síðan á heitum og sólríkum sumrum. Börn með barnaexem ættu ekki að klæðast ullarfötum næst sér, þar sem slík föt geta espað kláðann. Bómullarklæðnaður og annar mjúkur fatnaður, sem ekki er of þröngur, er heppilegastur fyrir þessi börn. Kláðinn verður verri í hita og því mikilvægt að ekki sé of heitt t.d. í svefnherbergjum þeirra. Börnum með húðexem virðist hættara við að fá ofnæmi fyrir dýrum, s.s. hundum og köttum. Best er því að útiloka slík dýr frá heimilum barna með barnaexem, en ef það er ekki mögulegt er best að reyna að halda dýrunum frá herbergi barnanna. Húð barna með barnaexem er hættara við sýkingum. Bakteríur eiga greiðari aðgang um sár og sprungna húð, sem myndast þegar barnið klórar sér. Vægari sýkingar er hægt að fyrirbyggja með því að þrífa húðina reglulega með vatni og mildri sápu. Teljir þú að sýking gæti hafa borist í útbrot á húð skalt þú ráðfæra þig við lækni. Varist að baða barnið rétt áður en það fer að sofa. Húðin hitnar í baðinu og það framkallar kláða. Baðið barnið a.m.k. 2-3 tímum fyrir háttatíma svo að húðin nái eðlilegu hitastigi fyrir svefninn. Barnaexem og fæðaBarnaexem getur versnað við neyslu einstakra fæðutegunda, oftast mjólkur eða eggja, en hugsanlega einnig í sambandi við neyslu á fiski, hveiti, hnetum o.fl. Þetta á einkum við um börn sem auk exems hafa ofnæmi, s.s. frjókornaofnæmi, astma eða ofnæmi í meltingarvegi. Fái börnin roða, útbrot eða kláða kringum munninn, versni húðeinkenni snögglega eða fái þau magaverki getur ástæðan verið óþol fyrir matnum. Hafi foreldrar grun um að fæðuóþoli sé um að kenna, er mikilvægt að hafa samband við lækni eða húðsjúkdómalækni og ráðfæra sig við hann um hvernig bregðast skuli við. Ekki hefja fæðuprófanir eða aðra tilraunastarfsemi upp á eigin spýtur. Barninu er nauðsynlegt að dagleg fæða innihaldi öll nauðsynleg efni og því er nauðsynlegt að læknar og fæðuráðgjafar geri tillögur um breytt mataræði ungbarna. Læknir kann að ráðleggja að forðast skuli fæðu í nokkra daga. Lagist exem er hægt að prófa að láta barnið borða fæðuna aftur og versni exem þá á ný er hugsanlegt að læknir mæli með sérstöku mataræði, oft í samráði við næringarráðgjafa. Mundu að svipta ekki barn þitt vissum nauðsynlegum fæðutegundum vegna órökstudds gruns um að fæðan valdi exeminu. Leitaðu ávallt ráða hjá læknum svo útiloka megi aðrar ástæður fyrst. |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO