Tilkynningar
Astmi og sálarlífiðVið vitum öll að tilfinningar okkar og hugsanir geta haft áhrif á líkamlega líðan okkar. Þegar við hræðumst slær hjartað hraðar og prófskrekkur veldur okkur líkamlegri vanlíðan, svita og magaverkjum. Streita og taugaveiklun geta ekki framkallað astma hjá fólki sem aldrei hefur haft astma. En sálrænir þættir geta framkallað astmaeinkenni hjá astmaveiku fólki. Þannig geta streita, taugaveiklun, hræðsla og þunglyndi jafnvel valdið astmakasti hjá þeim sem þegar búa við veiklaða lungnastarfsemi af völdum astma. Sjúkdómurinn sjálfur veldur ýmsum vandamálum þar til þú lærir hvernig þú getur lifað með astmanum, lærir hvernig lyfin verka og hvernig réttast sé að nota þau o.s.frv. Fólk með langvinna sjúkdóma einsog astma á oft erfitt með að sætta sig við að vera haldið slíkum sjúkdómi. Þér finnst þú standa ein eða einn og telur þig mæta takmörkuðum skilningi frá fjölskyldu og fólki sem þú umgengst. Sjúkdómurinn getur einnig valdið þér kvíða og hræðslu við slæm astmaköst. Astmaköst eru oftast óþægileg og einkum er erfitt að upplifa þá tilfinningu að ná ekki andanum. Því er eðlilegt að sjúklingurinn og þeir sem verða vitni að slæmum astmaköstum kvíði þeim. Hræðsla við köst getur valdið kvíða sem aukið getur á hættuna á köstum. Astmaköst koma oft að nóttu til þegar flestir eru frekar illa fyrir kallaðir til að fást við slíka lífsreynslu. Nóttin er tíminn til að safna kröftum fyrir næsta dag. Það er nauðsynlegt að reyna að finna hvaða tilfinningalegu þættir hafa áhrif á astmann og reyna að vinna bug á þeim. Hreinskilin umræða við fjölskyldu, vinnufélaga, skólafélaga o.s.frv getur stuðlað að auknu öryggi sjúklingsins og þeirra sem hann umgengst. Kennarar og annað starfsfólk skóla þurfa að vita um ástand astmaveiks barns og hvernig bregðast skuli við ef slæmra einkenna verður vart. Barnið verður þá öruggara, vitandi að það þarf ekki bara að reiða sig á eigin viðbrögð. Þá getur verið gott að ræða við lækni um það sem veldur þér óöryggi. |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO