Tilkynningar
Astmi og skólinnSkólaganga astmaveikra barna á að vera eðlilegur hlutur en þó geta skapast vandamál tengd skólanum. Astmi er algeng orsök fjarvista frá námi og mörg börn mæta einnig í skóla þó að astmaeinkenni hrjái þau. Það getur verið erfitt að halda fullu starfsþreki og námsgetu ef astminn er erfiður. Leikfimi reynist astmaveikum börnum og unglingum oft þröskuldur en það er afar mikilvægt að astmaveikir fylgi jafnöldrum sínum í einu og öllu, þar með talið í leikfimi og íþróttum. Kennarar og skólafélagar þurfa að vita um sjúkdóminn, læra að þekkja einkenni og vita hvernig bregðast skuli við þegar félaga þeirra líður ekki vel. Margt í skóla getur valdið astmaveiku fólki erfiðleikum. Í skólastofum og öðru umhverfi skólans geta verið ofnæmisvaldar eða loftræstingu verið ábótavant. Slíkt hefur slæm áhrif á alla nemendur en einkum þó þá astmaveiku. Bekkjarfélagar geta t.d. átt gæludýr og borið með sér ofnæmisvaka í skólann. Nemendur með astma þurfa yfirleitt að hafa lyfin sín með sér hvert sem þeir fara, einnig í skóla, leikfimi, íþróttahús og annað. Allir verða að hafa skilning á því að astmaveik börn þurfa oft að nota astmalyf svo þau geti tekið þátt í leikjum og íþróttum félaga sinna. Ekkert barn eða unglingur með astma á að þurfa að sleppa leikfimi eða íþróttum vegna þessa sjúkdóms. Líkamsrækt og hreyfing er reyndar fáum eins mikilvæg og einmitt astmasjúklingum. Með réttri lyfjameðferð eiga allir nemendur með astma að geta tekið þátt. Nauðsynlegt er að íþróttakennarar séu látnir vita um astma nemenda strax í upphafi vetrar og að þeir þekki til þeirra lyfja sem nemandinn þarf að nota.
|
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO