Tilkynningar
Skýrsla stjórnar Astma og ofnæmisfélagsins 2012Árið 2012 einkenndist af áframhaldandi góðri vinnu félagsins fyrir hagsmunum astma og ofnæmissjúkra. Það er ljóst að mikil vinna og ábyrgð hvíldi á herðum formanns sem kvaddi okkur í lok ársins og verður það skarð vandfyllt. Mig langar að biðja fundarmenn um að taka einnar mínúnútna þögn til að minnast Sigmars hér í þessu húsi. Fráfall Sigmars heitins bar skjótt að en þó fengum við nokkur í stjórn AO að kveðja þennan mikla sómamann sem leiddi okkur til góðra starfa með eldmóði sínum og dugnaði. Undirrituð fékk einnig tækifæri til að lofa honum áframhaldandi hollustu við félagið og starfsemi þess og gat því ekki skorast undan því að taka sæti Sigmars og fara fyrir félaginu næsta árið, þegar þess var óskað. Á árinu voru haldnir reglubundnir stjórnarfundir (6 talsins; 5/6/12, 9/10/12, 31/1/13, 21/2/13, 4/4/13, 16/4/13), en engin fræðsla fór fram á árinu á vegum félagsins enda orkunni beint í aðra átt með því að klára ýmis verkefni sem þegar hafði verið farið af stað með. Gefin voru út 2 blöð á árinu og fengu þau góðar viðtökur að vanda. Samstafið við þá félaga Kjartan og Jóhannes er með miklum ágætum og greinilegt að þar fara góðir menn. Styrkir á árinu námu 360.000 kr og var þeim varið til fræðslumála eins og ráð var fyrir gert. Annars standa peningamálin vel og sama má segja um styrktarsjóðinn en ekki var veitt úr honum að þessu sinni. AO á tvo fulltrúa í stjórn SÍBS. Það eru þær Dagný Lárusdóttir sem fer fyrir stjórninni og Stefanía Sigurðardóttir. Stefanía tók sæti Sigmars á haustmánuðum, að hans ósk, en hún var kjörin gjaldkeri stjórnar SÍBS. Fulltrúar AO á þingi SÍBS 26-27 október voru m.a. Dagný Lárusdóttir, Sigmar B. Hauksson, Stefanía Sigurðardóttir og varamaðurinn Björn Ólafur Hallgrímsson en AO á 21 fulltrúa á þinginu. Innheimta félagsgjalda gekk ekki vel og verða félagsmenn hvattir til þess í næsta blaði að standa skil á þeim. Árið var félaginu gott og tiltekin verkefni eru í höfn. Fyrst að nefna eru útgáfumál matreiðslubókarinnar „Kræsingar“ í höfn sem AO gefur út ásamt OPNU bókaútgáfu, útgáfu dagsetningin er júlí 2013. AO stóð straum af kostnaði á þýðingunni sem lauk árið 2012. AO mun bjóðast að kaupa tiltekinn fjölda bóka á lágmarksverði og selja til félagsmanna sinna. Sú sala fer fram gegnum AO skrifstofu auk þess sem Guðmundur framkv. stjóri SÍBS hefur lofað að happadrættisskrifstofan mun einnig selja bókina. Annað stórt verkefni sem ráðist var í var gerð uppskriftaþátta sem Sigmar átti hugmyndina að og fékk Stefaníu og Fríðu Rún í lið með sér. Þættirnir, sem verða 4 talsins voru teknir upp í júlí og ágúst. Yggdrasill styrkti gerð þeirra og verður spennandi að sjá útkomuna þegar búið verður að fullvinna þættina. Þá er að koma þeim í sýningu. Nokkrar umræður voru um það hvort að AO setti nafn sitt við tiltekin vörumerki sem þá væri ekki ofnæmisvaldandi og var ákveðið að fylgja öðrum norðurlöndum í þessum efnum og verður þetta eitt af málefnum fyrir nýja stjórn á komandi starfsári. Þátttaka í erlendu samstarfi og fundum/þingum. Sigmar sat í lok nóvember fund í Gautaborg í lok sem einnig er sýning og ráðstefna, kallaðist það verkefni ALLERGIA. Sigmar sat einnig fund í Austurríki þar sem fjallað var um mengun í borgum og reglur sem þar hafa verið settar er snúa að mengun ýmiskonar. Fundur var haldinn með Umhverfisnefnd Reykjavíkurborgar um mengun í Reykjavík, þar með talin lausagangur ökutækja, frjómengun og plöntun trjáa (sér í lagi birkis í námd við skóla, leikskóla og stofnanir), gras sláttur á sumrin og haustin, lausaganga hunda í Reykjavík, mengun vegna ryks og léleg sópun á götum borgarinnar Ráðist var í endurgerð á bæklingi Glaxo Smith Kline um fæðuofæmi og þakkar AO kærlega fyrir stuðninginn. Bæklingnum mun verða dreift víðsvegar í samvinnu við AO og eins og áður verður hægt að nálgast hann í apótekum og á læknastofum. Ný vefsíða hefur næstum tekið á sig lokamynd en aðeins fá smáatriði eru ekki frá gengin í þeim efnum og gert er ráð fyrir að ný vefsíða fari í loftið á vormánuðum 2013. Áfram munum við setja þar inn fræðsluefni og fréttir auk þess sem „facebook“ síða félagsins er virk. Markmiðið er að ná til enn fleiri félagsmanna og er söfnun / endurnýjun á netföngum þeirra hafin. Unga fólkið á Íslandi er okkar mesti auður og eitt af allra mikilvægustu hlutverkum félagssins er að standa ötullega við bakið á þessum hópi og foreldrum þeirra. Markmiðið er að gefa börnum og unglingum með astma og ofnæmi enn meiri gaum. Það verður gert með því að segja frá sigrum þeirra í komandi AO blöðum svo og að styðja við bakið á foreldrahópi astma og ofnæmissjúkra sem stofnaður var á haustmánuðum. Hópurinn er kærkomin viðbót við fjölbreytilegt starf félagsins en markmið hópsins er að vinna í samvinnu við AO að málefnum barna með astma og ofnæmi, gefa foreldrum færi á persónulegum skoðanaskiptum og standa saman að fræðslu og baráttu fyrir réttindum þessa minnihlutahóps sem því miður fer stækkandi. Hópurinn á samleið með samskonarhópi foreldra barna með fæðuofnæmi og munu þeir líklega sameinast í einn hóp á komandi starfsári. AO stendur nú á nokkrum tímamótum. Fyrst er það nýr formaður og töluverð endurnýjun á stjórn félagsins sem leiðir af sér breytingar sem vonandi verða til góðs í framtíðinni. Með þökk fyrir samstarfið og óskum um áframhaldandi mikla og góða vinnu á komandi starfsári Fríða Rún Þórðardóttir |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO