Tilkynningar

DÁSAMLEGUR MATUR SEM ALLIR GETA NOTIÐ Hin breska Alice Sherwood er...
Opnunartími skrifstofu
Gerast félagi
ao vidbragsaaetlun hnappur

Skráning á póstlista

Minningarkort
Tímarit
Fræðslumyndbönd
Medic Alert
SÍBS

 

 

 ht logo big neg1

Berkjuvíkkandi lyfjameðferð

 

Berkjuvíkkandi lyf verka á slétta vöðva í lungnaberkjum. Í astma dragast lungnaberkjurnar saman vegna krampa eða samdráttar í þessum vöðvum. Lyfin virka slakandi á vöðvana og það leiðir til berkjuvíkkunar.

Verkun lyfjanna hefst venjulega innan 5-10 mínútna en varir mislengi. Svokölluð skammvirk lyf verka í 3-6 tíma en langvirk lyf, sem einnig eru til, verka í 12-24 tíma.

Við bráð einkenni berkjusamdráttar eru yfirleitt notuð skammvirk, berkjuvíkkandi lyf til innöndunar. Dæmi um slík lyf er Ventolin eða Bricanyl. Lyfin verka fljótt ef þau eru tekin rétt. Mismunandi lyfjaform þessara lyfja krefjast þess að þú lærir rétta innöndunartækni. Fáðu lækni eða starfsfólk lyfjabúða til að fara yfir rétta notkun lyfjanna með þér. Ef um áreynsluastma er að ræða, eru innönduð berkjuvíkkandi lyf einnig notuð fyrirbyggjandi. Ef þau eru tekin nokkru áður en þú reynir á þig, geta lyfin hindrað berkjusamdrátt vegna líkamsáreynslu.

Það er afar áríðandi fyrir astmasjúklinga að hafa skammvirku lyfin ætíð við höndina.

Langvirk berkjuvíkkandi lyf eru einnig fáanleg. Innönduð lyf geta gefið berkjuvíkkun í a.m.k. 12 klukkustundir eftir einn skammt. Því þarf aðeins að taka þessi lyf tvisvar á dag, kvölds og morgna til að hemja berkjusamdrátt. Langvirk lyf eru notuð í reglulegri meðferð ásamt steralyfjum til að hindra og fyrirbyggja einkenni. Hér á landi eru skráð þrjú langvirk, berkjuvíkkandi innöndunarlyf, Serevent, Foradil og Oxis.

Aukaverkanir berkjuvíkkandi lyfja.

Aukaverkanir af berkjuvíkkandi lyfjameðferð eru sjaldgæfar, einkum ef lyfið er gefið til innöndunar. Sumir verða varir við skjálfta í höndum og við stóra skammta getur fólk fundið fyrir hraðari hjartslætti. Hjá börnum getur gætt óróleika, en það er þó helst ef lyfin eru gefin í töflu eða mixtúruformi. Þessar aukaverkanir eru hvimleiðar en alveg hættulausar. Þær hverfa oftast þegar lyfið hefur verið notað í nokkurn tíma. Líki þér ekki lyf vegna aukaverkana, skalt þú ráðfæra þig við lækni. Hugsanlega má skipta þér yfir á önnur samsvarandi lyf, sem þú þolir betur. Margvísleg lyfjaform og hjálpartæki eru til, svo að auðvelt á að vera að finna eitthvað sem passar hverjum sjúklingi.

Ung börn og sjúklingar með verulega skerta lungnastarfsemi eða þeir sem ekki geta samræmt innöndun og skömmtun úr þrýstingsúðatækjum geta notfært sér hina ýmsu úðabelgi fást til notkunar með slíkum lyfjaformi. Úðabelgur er ílangur plast- eða stálkútur. Á öðrum enda hans er gat fyrir úðaspray-ið en á hinum endanum er munnstykki eða andlitsgríma. Úðabelgir eru mismunandi fyrir mismunandi lyf og sjúklinga. Læknar og lyfjafræðingar geta sagt þér hvaða hjálpartæki passa við þitt lyf. Mundu að fylgja vel leiðbeiningum framleiðenda um notkun og hreinsun úðabelgjanna.

Berkjuvíkkandi lyf í töfluformi.

Berkjuvíkkandi lyf eru í flestum tilvikum gefin sem innúðalyf en sömu lyf eru einnig til sem töflur. Þegar lyf er tekin inn í töfluformi tekur líkaminn það til sín gegnum meltingarfærin, lyfið berst til blóðsins og dreifist þannig um allan líkamann. Það þýðir að verkunarmáti lyfsins verður mun hægari en ef lyfinu er andað beint til lungnanna. Það þýðir líka að stærri skammta þarf að gefa, því dreifingin um líkamann er meiri.

Nú eru einkum notaðar berkjuvíkkandi forðatöflur. Þær virka lengi eða 12-24 tíma svo lyfjagjöfin verður þægilegri. Töflur eru einkum notaðar sem viðbótarmeðferð við innandaða lyfjameðferð t.d. við næturastma. Einnig eiga sumir sjúklingar af einhverjum orsökum erfitt með innönduð lyfjaform og geta töflur þá komið að gagni. Sem dæmi um berkjuvíkkandi töflur má nefna Volmax, Bricanyl og Bambec töflur.

Aukaverkanir af töflum eru þær sömu og af innandaðri berkjuvíkkandi lyfjameðferð en þó heldur tíðari sökum stærri skammta og meiri blóðþéttni. Ráðfærðu þig við lækni hafir þú áhyggjur af aukaverkunum af lyfjunum þínum.

Frekari upplýsingar um lyfin getur þú fengið í lyfjabúðum. 

 

Póstlisti AO

Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO