Tilkynningar
Greining fæðuofnæmis og fæðuóþols
Undanfarna mánuði hafa ýmsir aðilar verið áberandi í markaðssetningu á vörum sem eiga að greina á auðveldan máta fæðuofnæmi og fæðuóþol. Ljóst er að um 20 – 35% einstaklinga telja sig vera með fæðuofnæmi eða fæðuóþol. Hins vegar þegar ítarlegum læknisfræðilegum aðferðum hefur verið beitt á þá einstaklinga þá reynist eingöngu 1 – 4% þeirra vera með staðfest fæðuofnæmi. Einhver hluti þeirra sem eftir standa er með fæðuóþol sem er ekki einungis bundið við svar ónæmiskerfisins að glútenóþoli undanskildu. Sjúkdómseinkenni fæðuofnæmis eða fæðuóþols eru mismunandi og ekki eingöngu bundin við meltingarveg. Geta þau einnig birst í einkennum frá öndunarfærum, liðum, mígreni, húð og jafnvel taugakerfi svo eitthvað sé nefnt. Algengustu einkenni fæðuóþols frá meltingarvegi eru uppþemba, vindverkir, niðurgangur, ógleði, brjóstsviði, maga- og kviðverkir. Því miður hefur enn ekki tekist að koma á fót skilvirkum leiðum til að greina fæðuóþol. En þó má með sameiginlegu átaki lækna og næringarfræðinga oft finna út hvað veldur. Stöðugt eru í gangi rannsóknir til að finna nýjar og auðveldari greiningarleiðir fyrir þessa sjúkdóma. Hins vegar er staðan enn þannig í dag að lítill hluti þeirra prófa sem hvað mest hafa verið auglýst undanfarna mánuði hafa sannanlega greiningarhæfni og því alls ekki æskileg til að meta hvort um óþol geti verið að ræða eða ekki. Ber því að vara fólk eindregið við notkun slíkra prófa þar sem reynslan hefur sannað að röng sjúkdómsgreining á fæðuóþoli getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Dæmi um rannsóknaraðferðir sem ekki hafa verið vísindalega sannreyndar til greiningar á fæðuofnæmi og fæðuóþoli eru t.d. blóðpróf sem grundvallast eingöngu á mælingu IgG, frumudrápspróf, svæðanudd, lithimnugreining og rannsóknir á hári svo eitthvað sé nefnt. Fyrir áhugasama er hægt að benda á ítarlegri greinar fyrir almenning um fæðuofnæmi og fæðuóþol á heimasíðu astma og ofnæmisfélagsins sem hafa birst í tímariti félagsins (ao.is). Björn Rúnar Lúðvíksson, Prófessor og yfirlæknir í ónæmisfræði við Landspítala Háskólasjúkrahús |
Póstlisti AO
Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO