Tilkynningar

DÁSAMLEGUR MATUR SEM ALLIR GETA NOTIÐ Hin breska Alice Sherwood er...
Opnunartími skrifstofu
Gerast félagi
ao vidbragsaaetlun hnappur

Skráning á póstlista

Minningarkort
Tímarit
Fræðslumyndbönd
Medic Alert
SÍBS

 

 

 ht logo big neg1

Góð ráð við barnaexemi

Hér fylgja nokkur góð ráð varðandi meðferð barna með barnaexem:

Klæðnaður

Mörg börn með exem þola illa klæðnað úr ull og ýmsum öðrum efnum. Flest þola þau hinsvegar bómull. Gætið þess að klæðnaður sé ekki þröngur og gott er að þvo ný föt, sem geta innihaldið mikið af litarefnum eða öðrum efnum (t.d. formaldehýð), nokkrum sinnum áður en þau eru tekin í notkun.

Fæða

Ekki er ástæða til að útiloka einstakar tegundir úr daglegri fæðu barnsins nema fyrir liggi örugg greining á ofnæmi barnsins gagnvart viðkomandi fæðutegund. Takmarkið ekki fæðuval barna nema í samráði við lækni.

Íþróttir

Leyfið barninu að taka þátt í öllum leikjum og íþróttum jafnaldra sinna. Sund í sundlaugum, einkum ef mikið klór er í lauginni, getur aukið þurrk húðarinnar og kláða, en vinna má gegn slíku með notkun rakaaukandi krema eftir bað. Börn með barnaexem geta vel tekið þátt í skólasundi og leikfimi.

Sól og sjóböð

Sól og sjóböð laga oftast exem. Mörgum exemsjúklingum hefur batnað verulega þegar þeir hafa haldið á suðlægar slóðir í fríum.

Hreinlæti og húðumhirða

Það var lengi útbreiddur misskilningur að exemsjúklingar mættu ekki nota of mikið vatn eða sápu. Rannsóknir hafa sýnt að dagleg þrif með vatni og mildri, ilmefnalausri sápu geta dregið úr líkum á húðsýkingum exemsjúklinga.

Meðferð barnaexems og umhirða húðar

Því miður er engin lækning til við barnaexemi. Hjá flestum börnum hverfur sjúkdómurinn hins vegar af sjálfu sér með aldrinum.

Þegar exem brýst út er hægt að fá ýmis krem til að meðhöndla exemið. Þessi lyf slá á kláðann og draga úr þurrki húðarinnar. Húðlyf byggð á hormónum eru öflugustu vopnin í baráttunni gegn barnaexemi. Þessi lyf kallast húðsterar og skiptast í flokka eftir styrkleika frá eitt (I) til fjögur (IV) þar sem flokkur eitt (I) inniheldur hydrókortisón, en flokkur fjögur (IV) inniheldur miklu sterkari efni.

Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af því að nota húðstera fyrir börn. Lyfin eru fullkomlega örugg séu þau notuð eins og fyrir er mælt og við rétta notkun fæst árangursrík verkun án nokkurra aukaverkana.

Vægustu húðsterana má nota í langan tíma án ótta við aukaverkanir. Óæskileg áhrif á húðina sjást einungis við stöðuga daglega notkun í stórum skömmtum á sama húðsvæði. Með því að hvíla húðina á lyfjunum um tíma, eða skipta reglulega um lyf og styrkleika er hægt að halda exeminu í skefjum án þess að skaða húðina.

Vægustu húðsterana er hægt að kaupa án lyfseðils í takmörkuðu magni, en ráðlegt er að meðhöndla ekki án samráðs við lækna. Yfirleitt hefja læknar meðferð með sterkari lyfjunum fyrst og lækka síðan styrkleikann eftir að tökum er náð á sjúkdómnum. Hversu slæmt exemið er og hvar á líkamanum það er ræður einnig miklu um val á lyfjum.

Þegar sterkustu lyfjaflokkarnir eru notaðir um langa hríð geta sést aukaverkanir á húð, s.s. húðþynning og æðavíkkun. Ekki er ráðlegt að nota sterka húðstera í andlit nema í skamman tíma og aldrei án samráðs við lækni. Hætta á aukaverkunum er þó lítil við venjulega notkun þessara lyfja, einsog áður er getið.

Hlaupi sýking í húðútbrot getur reynst nauðsynlegt að meðhöndla með bakteríudrepandi lyfjum eða sýklalyfjum.

Þurr húð

Exemhúð hefur lægra vatnsinnihald en önnur húð og er þess vegna afar þurr. Þurrkurinn espar upp kláðann og því ber að nota rakaaukandi krem daglega.

Góð rakakrem fást í lyfjabúðum, mörgum almennum verslunum og snyrtivöruverslunum. Ráðlegt er að nota ekki rakakrem sem innihalda karbamíð eða ilmefni.

Leitaðu ráða í apótekum eða snyrtivöruverslunum varðandi val á rakakremum. Starfsfólk þessara verslana hefur sérþekkingu á slíkri vöru og veit hvaða efni þau innihalda.

Baðolíur virka vel gegn þurri húð. Gott er að þvo barninu vel með sápu og vatni fyrst, skola síðan vel og setja barnið að síðustu í baðker með vatni og baðolíu. Ekki má þó nota of mikla olíu, einkum ef olían myndar filmu á húðinni svo eðlilegur sviti sleppur ekki út. Slíkt getur valdið kláða. 

Orsakir barnaexems

Ekki er vitað hvers vegna sum börn fá barnaexem en önnur ekki. En við vitum ýmislegt um hvað espar upp exem og kláða í húðinni.

Árstíðir virðast skipta miklu máli fyrir barnaexem. Einkenni eru yfirleitt verst seint á haustin, á veturna og fram á vorið en hverfa síðan á heitum og sólríkum sumrum.

Börn með barnaexem ættu ekki að klæðast ullarfötum næst sér, þar sem slík föt geta espað kláðann. Bómullarklæðnaður og annar mjúkur fatnaður, sem ekki er of þröngur, er heppilegastur fyrir þessi börn. Kláðinn verður verri í hita og því mikilvægt að ekki sé of heitt t.d. í svefnherbergjum þeirra.

Börnum með húðexem virðist hættara við að fá ofnæmi fyrir dýrum, s.s. hundum og köttum. Best er því að útiloka slík dýr frá heimilum barna með barnaexem, en ef það er ekki mögulegt er best að reyna að halda dýrunum frá herbergi barnanna.

Húð barna með barnaexem er hættara við sýkingum. Bakteríur eiga greiðari aðgang um sár og sprungna húð, sem myndast þegar barnið klórar sér. Vægari sýkingar er hægt að fyrirbyggja með því að þrífa húðina reglulega með vatni og mildri sápu. Teljir þú að sýking gæti hafa borist í útbrot á húð skalt þú ráðfæra þig við lækni.

Varist að baða barnið rétt áður en það fer að sofa. Húðin hitnar í baðinu og það framkallar kláða. Baðið barnið a.m.k. 2-3 tímum fyrir háttatíma svo að húðin nái eðlilegu hitastigi fyrir svefninn.

Barnaexem og fæða

Barnaexem getur versnað við neyslu einstakra fæðutegunda, oftast mjólkur eða eggja, en hugsanlega einnig í sambandi við neyslu á fiski, hveiti, hnetum o.fl. Þetta á einkum við um börn sem auk exems hafa ofnæmi, s.s. frjókornaofnæmi, astma eða ofnæmi í meltingarvegi. Fái börnin roða, útbrot eða kláða kringum munninn, versni húðeinkenni snögglega eða fái þau magaverki getur ástæðan verið óþol fyrir matnum.

Hafi foreldrar grun um að fæðuóþoli sé um að kenna, er mikilvægt að hafa samband við lækni eða húðsjúkdómalækni og ráðfæra sig við hann um hvernig bregðast skuli við. Ekki hefja fæðuprófanir eða aðra tilraunastarfsemi upp á eigin spýtur. Barninu er nauðsynlegt að dagleg fæða innihaldi öll nauðsynleg efni og því er nauðsynlegt að læknar og fæðuráðgjafar geri tillögur um breytt mataræði ungbarna.

Læknir kann að ráðleggja að forðast skuli fæðu í nokkra daga. Lagist exem er hægt að prófa að láta barnið borða fæðuna aftur og versni exem þá á ný er hugsanlegt að læknir mæli með sérstöku mataræði, oft í samráði við næringarráðgjafa.

Mundu að svipta ekki barn þitt vissum nauðsynlegum fæðutegundum vegna órökstudds gruns um að fæðan valdi exeminu. Leitaðu ávallt ráða hjá læknum svo útiloka megi aðrar ástæður fyrst. 

Hvað er barnaexem

Barnaexem er húðsjúkdómur sem lýsir sér sem kláði á afmörkuðum húðsvæðum og einnig sem litlar vatnsblöðrur á húðinni. Þegar exem brýst út verður húðin rauð og þegar barnið klórar sér myndast oft smásár og/eða hellur á húð. Slíkt kallast bráðaexem.

Vari exem lengi, fleiri mánuði eða ár, þykknar húðin og verður þurr og skrælnuð. Slíkt er kallað langvinnt exem eða krónískt exem. Þegar talað er um langvinnt eða krónískt exem þýðir það þó ekki endilega að sjúkdómurinn kunni að vara alla ævi. Hjá flestum börnum með barnaexem hverfur sjúkdómurinn þegar þau eldast.

Eftirtalin einkenni þurfa að vera til staðar til þess að um barnaexem sé að ræða: 

  • óvenju mikill kláði í húð 
  • útbreiddur þurrkur í húð 
  • útbrot á þunnri húð, s.s. í olnbogabót, undir höndum og aftan á hnjám, sem og tilhneiging til útbrota í andliti. 
  • Yfirleitt eru fyrstu einkennin á ungabörnum roði, þurrkur eða lítilsháttar útbrot í andliti. Í sumum tilvikum koma einkennin þó fyrst fram sem exem á fótum, hálsi eða á bleiusvæði. Haldi exem áfram fara að sjást útbrot í hnés- og olnbogabótum , á handleggjum og ökklum. Auk þessara útbrota getur húðin á öðrum svæðum líkamans verið þurr eða skrælnuð, einkum að vetri til.
  • Í sjaldgæfari tilfellum getur hlaupið sýking í exem og lýsir það sér þá sem gulleit skorpa á húðinni. Oft er sýkingin lúmsk og erfið greiningar. Ef illa gengur að halda einkennum exems niðri ber að athuga möguleika á sýkingu.

Börn þurfa ekki að vera með ofnæmi til þess að fá barnaexem og í raun mælist ekkert ofnæmi hjá flestum barnanna.

Barnaexem kemur og fer, stundum blossar það upp með miklum einkennum en síðan getur það legið niðri í langan tíma. 

Exem

 

Greinasafn:

Fleyrir greinar um exem má finna í Greinasafni

Bæklingar:

 Tenglar:

26 ofnæmisvaldandi efniEU hefur gefið út lista yfir helstu ofnæmisvaldandi efnin í húðvörum sem ber að forðast og sérstaklega ef þú ert með exem. Listinn nær yfir 26 ofnæmisvaldandi efni.
Sjá meðfylgjandi slóð: https://www.ecomundo.eu/en/blog/cosmetics-allergens-europe-compliance

 

Á síðu Kvarts er  meðal annars upplýsingar um ýmsa húðsjúkdóma (t.d. snertiofnæmi, barnaexem og handaexem)og meðferð þeirra. Sá sem sér um síðuna er húðsjúkdómalæknir og er einn af læknum Húðlæknastöðvarinnar við Smáratorg í Kópavogi.

Bæklingar sem má nálgast á skrifstofunni:

Póstlisti AO

Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO